8 Október 2002 12:00

Styrking löggæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að höfðu samráði við dómsmálaráðherra að fela lögreglustjóranum í Kópavogi daglega stjórn umferðardeildrar ríkislögreglustjórans. Ríkislögreglustjóri fer áfram með yfirstjórn deildarinnar og hefur eftirlit með verkefninu. Um tilraunaverkefni er að ræða frá 1. nóvember 2002 til 1. júní 2003. Áhersla er lögð á aukið umferðareftirlit á höfuðborgarsvæðinu auk eftirlits sem umferðardeildin hefur sinnt á þjóðvegum landsins í nánu samstarfi við lögreglustjórana og samkvæmt samstarfssamningi ríkislögreglustjóra og vegamálastjóra um umferðareftirlit frá 12. desember 2000. Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að umferðardeildin sinni óskum um sérstakt umferðareftirlit frá lögregluembættunum í tengslum við stærri lögregluverkefni eða skipulagt samstarf lögregluliða úr fleiri en einu umdæmi. Lögreglumenn deildarinnar eiga eingöngu að sinna umferðarmálum.

Umferðardeild ríkislögreglustjórans var komið á fót árið 1998, til að auka umferðareftirlit á landinu öllu. Hefur hún yfir að ráða sérbúnum bifreiðum til umferðareftirlits, auk þess sem Vegagerðin leggur umferðareftirlitinu lið með bifreiðum og mannafla samkvæmt sérstöku samkomulagi. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að efla umferðarlöggæslu í landinu, en einn mikilvægur þáttur skipulagsins er að hafa löggæsluna sveigjanlega, til að mæta sem best verkefnum og áherslum.

Deildin hefur tvær ómerktar bifreiðar búnar hraðamyndavélum og ratsjám, merkta lögreglubifreið sem búin er ratsjá með myndbandsupptöku og merkta lögreglubifreið með öndunarmæli til að afla sönnunargagna í ölvunarakstursmálum. Þeirri bifreið er einnig ætlað að sinna öðrum verkefnum, svo sem að vera aðgerðastjórnstöð lögreglu.  Þá mannar deildin, ásamt starfsmönnum Vegagerðarinnar, fjórar merktar lögreglubifreiðar sem eru í eigu Vegagerðarinnar, þar af er ein á Akureyri sem sérstaklega sinnir verkefnum í samræmi við áðurnefndan samstarfssamning og verður svo áfram.  Ríkislögreglustjóri getur breytt tilhögun þessari,  allri eða að hluta, fyrirvaralaust hvenær sem er á tímabilinu.

Markmiðið með því að fela lögreglustjóranum í Kópavogi daglega stjórn deildarinnar er að auka samstarf lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu í umferðarmálum, sem leiða á til meiri löggæslu þar og á þjóðvegunum.

Rekstur umferðardeildarinnar mun sem fyrr vera á kostnað ríkislögreglustjórans og Vegagerðarinnar.

Um umferðardeild ríkislögreglustjórans

Þjóðvegaeftirlit

Fyrstu heimildir um umferðareftirlit lögreglu á þjóðvegum landsins eru frá árinu 1937. Árið 1968, í tengslum við breytingu yfir í hægri umferð, gerði lögreglan í Reykjavík út sex eftirlitsbifreiðar á þjóðvegum yfir sumartímann, en fjórar yfir vetrarmánuðina. Árið 1979 setti dómsmálaráðuneytið reglur um þjóðvegaeftirlit, þar sem tekið er fram að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði starfrækt þjóðvegalögregla, og að dómsmálaráðuneytið  ákveði fjölda þeirra lögreglumanna, er starfa við hana. Árið 1995 var þjóðvegaeftirlit lögreglunnar í Reykjavík, sem heyrði undir umferðardeild embættisins, lagt af og færðust viðfangsefnin til viðkomandi lögregluembætta samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík og dómsmálaráðuneytisins, enda talið að embættin sjálf gætu haldið úti því eftirliti, hvert í sínu umdæmi. Þá var um árabil samstarf Vegagerðar og lögreglunnar um eftirlit með öxulþunga og öðrum verkefnum sem til féllu og stuðluðu að bættu umferðaröryggi. Því eftirliti var haldið úti á óeinkenndri bifreið.

Umferðardeild ríkislögreglustjórans komið á fót

Þjóðvegaeftirlit á landsvísu var síðan endurvakið árið 1998 af dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra. Það ár fluttust fjárheimildir vegna eftirlits með ökuritum frá dómsmálaráðuneytinu til ríkislögreglustjórans, sem gerði uppbyggingu og rekstur umferðardeildarinnar mögulegan.

Umferðardeild ríkislögreglustjórans sinnir umferðareftirliti á þjóðvegum landsins og hefur hún til umráða öndunarsýnabifreið með fullkomnum búnaði til að taka öndunarsýni af ökumönnum sem grunaðir eru um ölvun við akstur. Bifreiðin var tekin í notkun árið 1998. Lögreglumaður í Reykjavík, sem þar hafði með höndum stjórn umferðarmála, var um mitt árið 1998 fluttur til ríkislögreglustjórans til að vinna að umferðarmálefnum á landsvísu. Í byrjun árs 1999 voru tveir lögreglumenn, aðalvarðstjóri og varðstjóri, ráðnir til ríkislögreglustjórans og má segja að grunnur að þessari starfsemi hafi verið lagður. Embættið hafði frá árinu 1997 haft tvær ómerktar lögreglubifreiðar með sérstökum myndavélum við umferðareftirlit, sem voru mannaðar af lánsmönnum frá lögregluliðum þar til árið 1999. Síðan hafa starfsmenn embættisins séð um þetta viðfangsefni.

Nú er þessi deild skipuð sjö lögreglumönnum, auk þess sem ein stöðuheimildin er nýtt til sumarafleysinga. Umferðardeildin starfar m.a. með Vegagerðinni við þjóðvegaeftirlit um allt land, en sérstakur samningur hefur verið gerður milli ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar í þessum efnum og leggur Vegagerðin verulegt fjármagn til þessa verkefnis. Samtals er ráðstafað til þessa verkefnis fjórum bifreiðum, sem Vegagerðin leggur til, sem mannaðar eru starfsmönnum hennar og lögreglumönnum umferðardeildar. Yfir veturinn, u.þ.b. þrjá mánuði er bifreiðunum fækkað í þrjár. Til viðbótar þeim bifreiðum sem Vegagerðin leggur til verkefnisins gerir umferðardeildin út sérbúnar bifreiðar til umferðareftirlits. Eflir þetta umferðareftirlit um land allt með skipulögðum aðgerðum á þjóðvegunum. Í bifreiðum umferðardeildarinnar er um að ræða afar dýr tæki (öndunarsýni og myndavélar) sem ekki er unnt að kaupa til sérhvers lögregluliðs, auk þess sem á tækin þarf mikla þjálfun. Þá hafa ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórar gert samstarfssamninga sín í milli um sameiginleg verkefni og aðgerðir. Auk þess er mikið samstarf víða um land í umferðarmálum.

Fram til ársins 2000 sinntu fjórir lögreglumenn frá lögreglunni í Reykjavík, Kópavogi og Akureyri, eftirliti með ökuritum í samvinnu við Vegagerðina, en það var greitt af fjárveitingu til ríkislögreglustjórans. Umferðardeild ríkislögreglustjórans tók síðan við verkefninu árið 2000 og sameinaði það þjóðvegaeftirlitinu. Þannig var farið að sinna almennu umferðareftirliti, með ökuritaeftirlitinu og embættin hættu að þurfa að leggja til mannskap vegna þess.

 Reykjavík 8. október 2002 

 Reykjavík 8. október 2002

Ríkislögreglustjórinn