18 Ágúst 2015 20:12

Vegna kvöldfréttar ríkisútvarpsins þess efnis að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið ríflega 200 milljónir kr. fram úr fjárheimildum fyrstu 6 mánuði ársins og viðtals við formann fjárlaganefndar Alþingis skal eftirfarandi leiðréttingu komið á framfæri við almenning.

 

 

Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 17. apríl sl. var samþykkt, á grundvelli tillögu samráðshóps ráðuneytisstjóra, að veita þeim stofnunum sem unnið hafa að vöktun, viðbúnaði og mælingum vegna Holuhrauns og eldsumbrotanna norðan Vatnajökuls aukin fjárframlög að upphæð 448,7 milljónir kr. árið 2015. Af þeirri fjárhæð var ákveðið að veita 108 m.kr. til embættis ríkislögreglustjóra. Fjárheimildir þessar voru ekki færðar af hálfu fjármálaráðuneytisins í rekstrargrunn embættisins þegar uppgjör Fjársýslu ríkisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins var tekið saman og kynnt.

 

Þá náðist heldur ekki að ljúka tekjufærslum sem nema um 60 m.kr. fyrir uppgjör Fjársýslu ríkisins og er því sú fjárhæð vantalin í uppgjörinu.

 

Í lok árs 2014 var um 30 m.kr. halli á rekstri lögreglubifreiða og verður þeim halla náð niður á árinu 2015.

 

Gert er ráð fyrir að rekstur embættis ríkislögreglustjóra verði í jafnvægi við árslok.

Því má ljóst vera að ríkislögreglustjóri hefur ekki farið fram úr heimildum eins og misskilja má ef eingöngu er stuðst við uppgjör Fjársýslu ríkisins. Þegar lesið er í slíkar upplýsingar er ekki úr vegi að hafa heildarmynd og allar upplýsingar um fjármál á takteinum svo komist verði hjá röngum fullyrðingum um fjárhagsstöðu embættis ríkislögreglustjóra.

 

Ríkislögreglustjóri,

 

  1. ágúst 2015