24 Júní 2014 12:00

Ríkislögreglustjóri hefur sett á stofn fimm manna utanaðkomandi fagráð sem taka á til umfjöllunar mál er varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan lögreglunnar. Samkvæmt tilnefningu jafnréttisnefndar lögreglunnar hefur ríkislögreglustjóri skipað Davíð Þór Björgvinsson, prófessor, sem jafnframt er formaður ráðsins, Láru V. Júlíusdóttur, hrl., Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor, Önnu Kristínu Newton, sálfræðing og Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, jafnréttisfulltrúa lögreglunnar til að taka sæti í fagráðinu.

Hlutverk fagráðsins er m.a. að taka við, meta, koma í viðeigandi farveg og fylgja eftir tilkynningum sem ráðinu berast og tryggja að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt starfsreglum fagráðs og landslögum. Að ósk lögregluembættis eða annarra hlutaðeigandi aðila, tekur fagráðið til umfjöllunar þau mál er varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan lögreglunnar. Allar tilkynningar til fagráðsins skulu berast skriflega til formanns fagráðsins, með tölvupósti á netfangið fagrad@logreglan.is

Markmið fagráðsins er að starfsfólk lögreglu sem verður fyrir beinni og óbeinni mismunun, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og einelti hafi aðgang að aðilum sem eru óháðir lögreglunni. Í samræmi við mannauðsstefnu lögreglunnar er slík hegðun ekki liðin og litin alvarlegum augum, en í lögreglunni er lögð áhersla á samheldni, traust og góðan starfsanda.