3 Febrúar 2003 12:00

Samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra fór fram athugun og rannsókn á ýmsu sem snýr að þjónustu lögreglunnar, verklagi við yfirheyrslur o.fl. Nýsköpunarsjóður námsmanna veitti styrk til rannsóknarinnar og til verksins var ráðinn Emil Einarsson, sem hefur BA próf í sálfræði. Emil lagði spurningalista fyrir þátttakendur sem féllust á að svara ítarlegum spurningum í júní til október 2002, þegar þeir mættu hjá lögreglu í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri.  Þátttakendur voru 93, þar af 47 með réttarstöðu grunaðs manns, 31 vitni og 15 kærendur, 40 í Reykjavík, 29 á Akureyri, 13 í Kópavogi og 11 í Hafnarfirði.  Verkefni þessu lauk í nóvember síðastliðinn og voru niðurstöður sendar Nýsköpunarsjóði og lögregluembættum sem lögðu þessu lið.  Emil hélt vinnu sinni áfram að ákveðnum atriðum og hefur nú skilað álitsgerð sem hann vann í félagi við dr. Jón Friðrik Sigursson, sálfræðing.

Flestir sem spurðir voru reyndust vera ánægðir með móttökur sem þeir fengu hjá lögreglunni. Þannig sögðu 64,4% grunaðra að lögreglan hefði tekið vel á móti þeim og 87% vitna og kærenda. Fáir sögðu að lögreglan hafi tekið illa á móti þeim, eða 4,4% grunaðra og 2,2% vitna og kærenda.

Í niðurstöðum sem lúta að fölskum játningum kemur fram að 65,2% játuðu á sig brot, sem þeir voru grunaðir um, af því að lögreglan hefði sannanir gegn þeim, það væri ekki ástæða til að neita sök eða þeir sáu eftir því að hafa framið brotið.  Alls sögðust 19,6% grunaðra hafa einhvern tíma játað á sig brot hjá lögreglu sem þeir frömdu ekki en voru með játningunni að hylma yfir með öðrum, þeir vildu losna sem fyrst af lögreglustöðinni eða væru með fráhvarfseinkenni.  Þá kom í ljós að fíkniefnaneysla grunaðra var mjög ólík neyslu vitna og kærenda að því leyti að þeir virtust vera í mun harðari neyslu og alvarlegri.  

Ríkislögreglustjóri hefur gert dómsmálaráðherra og ríkissaksóknara grein fyrir niðurstöðunum, jafnframt því að beina því til lögreglustjóranna og Lögregluskóla ríkisins, að lögð verði rík áhersla á það að lögreglumönnum verði kynnar niðurstöðurnar og að farið verði rækilega yfir mikilvægi þess að vera stöðugt á verði gagnvart því að grunaður maður játi á sig brot sem hann hefur ekki framið. Enn fremur er ríkislögreglustjóri að leita leiða til að láta fara fram frekari rannsóknir á þessu sviði.

Rannsókn á fölskum játningum

Umfjöllun

Á síðari hluta seinasta árs var gerð rannsókn á líðan og persónuleikaeinkennum grunaðra, kærenda og vitna sem komu til yfirheyrslu hjá lögreglu og viðhorfum þeirra til starfshátta lögreglu. Úrtakið var hentugleikaúrtak sem byggðist á því hverjir samþykktu að taka þátt í rannsókninni eftir að hafa verið í yfirheyrslu hjá lögreglu. Úrtakið samanstóð af 93 þátttakendum af lögreglustöðvunum í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Akureyri. Þátttakendur voru beðnir um að svara spurningalista á lögreglustöð með rannsóknarmann sér til aðstoðar. Listinn samanstóð af spurningum um  hegðun við yfirheyrslur og viðhorf gagnvart lögreglunni svo og átta sálfræðilegum prófum um líðan og persónuleikaeinkenni.

Helstu niðurstöðum rannsóknarinnar er lýst í skýrslu sem Emil Einarsson vann fyrir Ríkislögreglustjóra og Nýsköpunarsjóð.  Niðurstöðurnar sýndu að alls höfðu 65,2% játað á sig það afbrot sem þeir voru grunaðir um að hafa framið og helsta ástæða fyrir játningunni var að þeir töldu lögregluna hafa sannanir gegn sér.  Einnig sýndu niðurstöður að grunaðir voru minna félagsmótaðir og harðlyndari en kærendur og vitni.  Grunaðir reyndust einnig vera þunglyndari og haldnir meira vonleysi en vitni og kærendur. Viðhorf gagnvart starfsháttum lögreglunnar voru í flestum tilfellum jákvæð, þó að grunaðir hefðu sýnt aðeins neikvæðari viðhorf.

Það vakti sérstaka athygli að níu eða 19,6% grunaðra sögðust einhvern tímann við yfirheyrslu hjá lögreglu hafa játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið.  Einnig sagðist einn sem kom til þess að kæra hafa gefið falska játningu við yfirheyrslu hjá lögreglu.  Ef þessar niðurstöður eru réttar bendir það til þess að stór hópur fólks hafi gefið falska játningu við yfirheyrslur hjá lögreglu.  Fyrri rannsóknir á fölskum játningum hafa hins vegar sýnt að falskar játningar virðast ekki vera svona algengar.  Ein stærsta og ýtarlegasta rannsóknin á þessu sviði er rannsókn Jóns F. Sigurðssonar og Gísla H. Guðjónssonar (1996).  Úrtak þeirrar rannsóknar samanstóð af 509 föngum sem afplánuðu dóm í Íslenskum fangelsum yfir fjögurra ára tímabil.  Niðurstöður rannsóknarinnar voru að 62 eða 12% fanga sögðust einhvern tímann hafa gefið falska játningu við yfirheyrslu hjá lögreglu (Jón F. Sigurðsson og Gísli H. Guðjónsson, 1996).  Einnig sýndi rannsókn sem gerð var á 1080 framhaldsskólanemum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri að 10 eða 3,8% þeirra sem höfðu farið í yfirheyrslu hjá lögreglu sögðust einhvern tímann hafa játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið (Emil Einarsson, Eva B. Valdimarsdóttir og Ólafur Ö. Bragason, 2002).

Á þessu má sjá að hlutfall falskra játninga í þessari rannsókn er það mikið  hærra en í fyrri rannsóknum að það gefur tilefni til þess að skoða þennan mun frekar.  Þessi mikli munur gæti að einhverjum hluta verið vegna mismunandi fyrirlagna og úrtaka rannsóknanna.  Í þessari rannsókn reyndist  mjög erfitt að fá þátttakendur og getur það hafa gert það að verkum að mjög einsleitur hópur hafi samþykkt að taka  þátt.  Ýmislegt bendir til þess að þeir grunuðu sem samþykktu að taka þátt á lögreglustöðinni í Reykjavík hafi verið tíðir gestir hjá lögreglu, en það var einmitt þar sem erfiðast gekk að fá þátttakendur.  Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar sést að flestir þeir sem sögðust einhvern tímann hafa gefið falska játningu voru yfirheyrðir í Reykjavík.  Þetta getur bent til þess að úrtakið samanstandi af miklum hluta af síbrotamönnum sem eru mun líklegri en aðrir til þess að gefa falska játningu.

Það að úrtakið samanstandi af miklum hluta af síbrotamönnum skýrir samt sem áður ekki af hverju tíðni falskra játninga er hærri í þessari rannsókn en í rannsóknum á föngum.  Mikill hluti fanga eru síbrotamenn og ættu því niðurstöðurnar að vera svipaðar ef þessi skýring er rétt.

Helstu niðurstöður

Þeir sem voru yfirheyrðir vegna þess að þeir voru grunaðir um afbrot voru alls 47 og algengustu brot sem þeir voru yfirheyrðir fyrir voru auðgunarbrot, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Alls voru 15 (32,6%) yfirheyrðir fyrir auðgunarbrot, 10 (21,7%) fyrir umferðarlagabrot og 6 (13%) fyrir fíkniefnabrot. Af þeim 47 sem grunaðir voru um afbrot sögðust 25 (53,2%) hafa framið það afbrot sem þeir voru grunaðir um. Flestir, eða 13 (59,1%) sögðust hafa framið afbrotið gegn einhverjum sem þeir tengdust, þar af frömdu fimm það gegn vini sínum og 9 (40,9%) sögðust hafa framið afbrotið gegn ókunnugum. Þrír svöruðu ekki spurningunni.

Alls sögðust 13 (52%) hafa verið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna þegar þeir frömdu brotið og alls sögðust 30 (65,2%) hafa játað á sig það afbrot sem þeir voru grunaðir um. Helstu ástæður sem grunaðir gáfu upp fyrir því að játa á sig afbrot voru að þeir töldu að lögreglan hefði sannanir gegn sér, þeir sáu enga ástæðu til að neita og sáu eftir að hafa framið brotið (sjá töflu 1).  Eins og sjá má á töflu 1 þá skarast flokkarnir en það er vegna þess að sumir gáfu upp fleiri en eina ástæðu. Alls neituðu 16 að hafa framið það brot sem þeir voru yfirheyrðir fyrir og sögðu þeir allir að það hefði verið vegna þess að þeir voru saklausir.

Tafla 1. Helstu ástæður grunaðra fyrir því að játa á sig afbrot 

Ástæður

Fjöldi

Vegna þess að ég var að hylma yfir með öðrum

2

Ég vildi létta á samvisku minni

3

Ég vildi losna sem fyrst af lögreglustöðinni

4

Ég var að forðast gæsluvarðhald

2

Ég taldi að lögreglan hefði sannanir gegn mér

11

Ég var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna

3

Ég sá enga ástæðu til að neita

10

Ég sá eftir að hafa framið brotið

8

Ég var með fráhvarfseinkenni

2

Annað

1

Samtals

46

Níu (19,6%) grunaðra sögðust einhvern tímann hafa við yfirheyrslu hjá lögreglu játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið.  Einn þeirra sem komu til að kæra sagðist einu sinni hafa játað falskt á sig auðgunarbrot við yfirheyrslu hjá lögreglu. Enginn af þeim sem komu til að bera vitni sagðist hafa gefið falska játningu. 

Algengustu brot sem hinir grunuðu höfðu játað á sig en höfðu ekki framið voru auðgunarbrot en sjö (77,8%) sögðust hafa gefið falska játningu við slíkum brotum (sjá töflu 2). Margir höfðu gert falska játningu fyrir fleiri en eitt brot og því skarast flokkarnir í töflunni.

Tafla 2. Brot sem grunaðir sögðust hafa gert falska játningu 

Brot

Fjöldi

Auðgunarbrot

7

Skjalafals

2

Umferðarlagabrot

2

Fíkniefnabrot

3

Eignaspjöll

4

Samtals

18

Tveir þeirra sem höfðu gert falska játningu sögðust hafa gert það þrisvar sinnum, einn sagðist hafa gert það tvisvar til þrisvar, tveir tvisvar, einn tíu til tuttugu sinnum, einn oft og tveir gáfu ekki upp hversu oft. Helsta ástæða sem grunaðir gáfu upp fyrir því að játa á sig brot sem þeir höfðu ekki framið var að þeir voru að hylma yfir með öðrum en fjórir (50%) gáfu upp þá ástæðu (sjá töflu 3). 

Tafla 3.  Ástæður fyrir fölskum játningum 

Ástæður

Fjöldi

Lögreglan þvingaði mig

1

Ég var að forðast gæsluvarðhald

1

Ég var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna

1

Ég var að hylma yfir með öðrum

4

Ég vildi losna sem fyrst af lögreglustöðinni

2

Ég var með fráhvarfseinkenni

2

Skipti mig engu

1

Samtals

12

Algengustu ástæður þess að grunaðir voru yfirheyrðir fyrir brot sem þeir frömdu ekki var að þeirra sögn að þeir voru á vettvangi og að lögreglan grunaði þá alltaf, en fjórir gáfu upp hvora ástæðu. Einnig gáfu þrír upp þá ástæðu að borin hefðu verið kennsl á þá (sjá töflu 4).

Tafla 4. Ástæður þess að grunaðir voru yfirheyrðir fyrir afbrot sem þeir frömdu ekki 

Ástæður

Fjöldi

Var á vettvangi

4

Borin voru kennsl á mig

3

Nafn mitt var nefnt af vini/kunningja/ættingja

2

Lögreglan grunar mig alltaf

4

Veit ekki

3

Annað

1

Samtals

17

Fjórir þeirra sem höfðu játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið sögðust hafa verið sakfelldir eftir játninguna. Tveir sögðust ekki hafa verið sakfelldir og máli var ekki lokið hjá þremur.

Þegar athugað var hversu oft þeir sem höfðu gert falska játningu höfðu verið grunaðir um afbrot kom í ljós að þrír af þeim tíu sem sögðust hafa gefið falska játningu höfðu verið yfirheyrðir 21 sinni eða oftar.  Tveir höfðu verið yfirheyrðir sem grunaðir 16-20 sinnum, tveir 11-15 sinnum, tveir 2-5 sinnum og einn einu sinni.  Á þessum tölum má sjá að þeir sem hafa játað á sig afbrot sem þeir hafa ekki framið virðast vera oftar í höndunum á lögreglunni en aðrir.