3 Júlí 2014 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra er einn af þáttakendum í NORDRESS-rannsóknarverkefninu sem hlotið hefur ríflega 400 milljóna króna styrk frá NordForsk, undirstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar. Dr. Guðrúnu Gísladóttur, landfræðingur við Háskóla Íslands, fer fyrir NORDRESS-rannsóknarverkefninu en að því koma fjölmargir vísindamenn og stofnanir frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Markmið verkefnisins er að auka öryggi norrænna samfélaga gagnvart náttúruhamförum.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mun taka þátt í rannsóknum á áfallaþoli samfélaga, upplifun samfélaga á áhættu, og á regluverki og ábyrgð opinberra stofnana sem bregðast við náttúruhamförum. Auk þess mun deildin taka þátt í rannsóknum á aukinni hættu á slysum og áföllum á norðurslóðum samfara aukinni umferð skemmtiferðaskipa og mögulegri olíuvinnslu á norðurheimskautssvæðinu.

NORDRESS-verkefnið mun standa í fimm ár og mun það efla enn frekar hlut rannsókna í starfi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Lesa má fréttatilkynningu Háskóla Íslands hér fyrir neðan.

http://www.hi.is/frettir/risastyrkur_til_rannsokna_a_natturva_og_oryggi