1 September 2003 12:00

Ríkislögreglustjóri og Umhverfisstofnun hafa undirritað samning um að Umhverfisstofnun hafi umsjón með framkvæmd skotvopnanámskeiða á öllu landinu frá og með 1. janúar 2004. Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar hefur fram til þessa haldið námskeið fyrir umsækjendur um veiðikort. Mikil hagræðing felst í að sameina skipulag og framkvæmd beggja námskeiðana í ljósi þess að flestir sem sækja um skotvopnaleyfi sækja einnig um veiðikort. Leyfisveitingar til umsækjenda um skotvopn verða áfram í höndum lögreglustjóranna en framkvæmd prófa og námskeiðahald verður í höndum Umhverfisstofnunar. Samningurinn felur í sér að Umhverfisstofnun annist endurnýjun kennsluefnis með aukinni áherslu á framsetningu á vefnum sem og í prentuðu máli. Ennfremur eru meginmarkmið samningsins að samræma námskeiðahald og próf á landinu. Samningur þessi er gerður með heimild í í 27. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl., nr. 787/1998, þar sem fjallað um námskeið og próf  í meðferð skotvopna. Samkvæmt ákvæði þessarar greinar er ríkislögreglustjóra heimilt að fela öðrum framkvæmd þessara námskeiða. Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar við undirritun samningsins.

Nánari upplýsingar:

Áður en ákvörðun um þessa breytingu var tekin óskaði ríkislögreglustjóri eftir afstöðu allra lögreglustjóra til málsins. Mikill meirihluti þeirra mæltu með því, eða gerðu ekki athugasemdir við, að Umhverfisstofnun yrði falin framkvæmdin.  Þar á meðal voru stór embætti eins og Reykjavík, Kópavogur, Keflavík og Akureyri svo einhver embætti séu nefnd.  Í þessu sambandi má nefna til fróðleiks að í greinagerð með frumvarpi til vopnalaga, 13. gr., segir að æskilegt sé að námskeið lögreglustjóra um skotvopn og skotfæri verði endurskipulögð og eftir atvikum sameinuð námskeiðum um veiðar. 

Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar sem staðsett er á Akureyri (áður Embætti veiðistjóra) mun sjá um framkvæmdina.  Í 6. gr. samningsins er kveðið á um að  Umhverfisstofnun beri að kappkosta að ná eftirfarandi markmiðum:

 1.    Samræma námsefni yfir landið

 2.    Samræma námskeiðahald yfir landið

 3.    Samræma próf yfir landið

 4.    Auka og bæta námsefnið frá því sem nú er með aukinni framsetningu

 kennsluefnis á vefnum sem og prentuðu máli.

 5.    Halda reglulega gæðakönnun á námskeiðunum og senda niðurstöður til

 ríkislögreglustjóra.

Umhverfisstofnun hefur haldið veiðinámskeið um allt land frá árinu 1996 og hefur því mikla reynslu af námskeiðahaldi í tengslum við málefni skotveiðimanna. Samningur þessi mun renna styrkari stoðum undir fræðslustarf það sem Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar rekur og opna möguleika á að stórbæta það námsefni sem nýjum skotveiðimönnum stendur til boða. Eins og áður hefur komið fram er Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar staðsett á Akureyri og því í raun um styrkingu á starfsemi þar að ræða þar sem nú verður mögulegt að ráða starfsmann í fullt starf til að sjá um bæði námskeiðin, þ.e. skotvpopana- og veiðinámskeiðin.

Umhverfisstofnun mun auglýsa námskeiðin og taka við umsóknum á þau frá 1. janúar 2003.  Umhverfisstofnun mun leitast við að halda námskeiðafjölda í takt við eftirspurn og óskir lögregluembætta.  Umhverfisstofnun mun leitast við að tryggja að staðsetning námskeiða sé með þeim hætti að þeir sem þau sækja þurfi ekki að ferðast lengra en 100 km til þess að sitja þau.

Það er von  embættis ríkislögreglustórans og Umhverfisstofnunar að með samningi þessum takist að samræma framkvæmd skotvopnanámskeiða og kennsluefnis á öllu landinu og þar með bæta fræðslu í meðferð skotvopna frá því sem nú er.