11 Mars 2003 12:00

Nígeríubréfum, sem svo eru kölluð og flest berast með tölvupósti, hefur fjölgað mjög upp á síðkastið þar sem einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi er boðin vegleg fjárhæð fyrir að vísa á bankareikning og aðstoða við millifærslu á gríðarlegum fjárhæðum í Bandaríkjadollurum eða evrum.  Á síðasta ári framsendu viðtakendur um 2.200 bréf af þessu tagi til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans, sem bárust frá Nígeríu, Suður Ameríku, Ástralíu og víðar.  Þóknun, sem boðin er fyrir að vísa á bankareikning, getur verið á bilinu 15 til 30% af fjárhæðum sem nema tugum milljóna í erlendri mynt.   Viðtakendur eru beðnir um að inna af hendi einhverja “litla” greiðslu, eða á bilinu 5.000 til 12.000 dollara, til þess að auðvelda óljósa afgreiðslu peninganna í landi sendandans.        

Þá færist í vöxt að einstaklingum og fyrirtækjum er tilkynnt með tölvupósti að þeir hafi hlotið  LOTTO vinning sem verði greiddur út þegar viðtakandi hefur gefið upp bankareikning eða númer á kreditkorti.  Fjárhæðir sem nefndar eru geta legið á bilinu 20 til 50.000 Bandaríkjadalir.  Bréf eða tölvupóstur með þessum gylliboðum kemur aðallega frá Hollandi og Spáni og í einhverjum tilfellum frá Kanada og Ástralíu. 

Embætti ríkislögreglustjóra varar einstaklinga og forráðamenn fyrirtækja við því að svara þessum bréfum og tölvupósti, sem er sendur í þeim eina tilgangi að svíkja fé af fólki.  Vitað er um einstaklinga hér á landi sem hafa látið glepjast með því að fara að þeim tilmælum sem bréfritari biður um en sitja uppi með sárt ennið og glatað fé.  Það er enda ásetningur þeirra sem standa fyrir þessum bréfum.