3 Janúar 2006 12:00

Við áframhaldandi rannsókn á fíkniefnamálinu sem upp kom í Vestmannaeyjum á gamlársdag hefur verið gerð leit í fjölmörgum húsum í bænum með fíkniefnahundi lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Seint í gærkveldi fannst rúmt kíló af hassi í húsnæði tengdu manninum sem nú situr í gæsluvarðhaldi. Magnið sem nú hefur fundist í tengslum við málið er nálægt 1,3 kíló af hassi og 20 grömm af amfetamíni.

Rannsókn málsins er í fullum gangi og beinist að því að upplýsa meinta sölu fíkniefna í Eyjum.

Maðurinn hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands til hæstaréttar, en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til næsta laugardags.