28 Mars 2006 12:00
Í gær voru haldnir rýnifundir vegna almannavarnaæfingarinnar Bergrisans sem fram fór á sunnudaginn 26.mars s.l. í Rangárvallasýslu.
Haldinn var rýnifundur hjá aðgerða- og vettvangsstjórn í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu kl. 17, en síðan var haldinn annar fundur með viðbragðsaðilum í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli kl. 20:30, þar sem farið var yfir æfinguna heild sinni.
Á fundi aðgerðar og vettvangsstjórnar kom fram mikil ánægja með vel heppnaða æfingu og voru menn sammála um að æfingin hafi í heild sinni tekist mjög vel og skipulagið hafi gengið upp, í meginatriðum.
Á fundi með viðbragðsaðilum í gærkvöldi kom fram að viðbragðsaðilar voru einnig mjög ánægðir með æfinguna i heild sinni. Ýmis smáatriði komu þó upp sem verða löguð og er sú vinna hafin.
Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli þakkaði þáttakendum fyrir þáttökuna og lofaði starf þeirra vel, fyrir hönd aðgerðastjórnar. Hann vildi ennfremur koma á kæru þakklæti til allra þeirra íbúa og sumarhúsaeigenda sem tóku þátt og sýndu vilja í verki með þáttöku sinni í þessari viðamestu almannavarnaæfingu sem haldin hefur verið á Íslandi, en aldrei hefur æfing af slíkri stærðargráðu verið haldin hérlendis.
Allir þeir sem hafa athugasemdir og ábendingar varðandi æfinguna eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Hvolsvelli í síma 488 4110 eða í síma 488 4100. Öllum ábendingum og athugasemdum er vel tekið.
Meðfylgjandi myndir sýna Aðgerða- og vettvangsstjórn og svo fullltrúa allra viðbragðsaðila í héraði sem þátt tóku í æfingunni.