11 Mars 2009 12:00

Í dag var skrifað undir samninga um sérstakt umferðareftirlit og sjálfvirkt hraðaeftirlit milli samgönguráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu og ríkislögreglustjóra. Samningurinn gildir í tvö ár og er hluti af umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Framlag til lögreglunnar er samtals 76 milljónir króna. Annar samningurinn tekur til aukins eftirlits lögreglu með ökuhraða, ölvunarakstri og annars hefðbundis eftirlits lögreglu með umferðinni. Hinn samningurinn varðar úrvinnslu sekta úr löggæslumyndavélum vegna hraðakstursbrota sem sýslumaðurinn á Snæfellsnesi annast. Af þessu tilefni þakkaði ríkislögreglustjóri samgönguráðherra fyrir stuðninginn við lögregluna í landinu og lýsti ánægju sinni með afar farsælt samstarf samgönguráðuneytis, Vegagerðar, Umferðarstofu og ríkislögreglustjóra á undanförnum árum. Ríkislögreglustjóri gat þess að árangur hefði náðst í umferðaröryggismálum meðal annars vegna þessa mikla samstarfs og þeirra fjárveitinga sem lögreglan hefði fengið til aukins eftirlits með umferðinni. Á þessu ári er alls varið 367 milljónum til umferðaröryggisáætlunar.

Á myndinnu eru Kristján L. Möller, samgönguráðherra, Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri.