21 Mars 2007 12:00
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra opnaði föstudaginn 16. mars s.l. nýtt viðbótarhúsnæði Lögregluskóla ríkisins við Krókháls 5b. Við sama tækifæri var ritað undir árangursstjórnunarsamning um starfsemi skólans auk þess sem staðfest var skipurit fyrir skólann og erindisbréf skólastjóra, Arnars Guðmundssonar.
Með þessari nýju viðbót stækkar húsnæði lögregluskólans um tæplega 400 fm2 og segir Arnar Guðmundsson, skólastjóri, að þetta gjörbreyti allri aðstöðu hans. Mestu munar um nýtt þjálfunar- og æfingarými en að auki bætast við kennslurými sem nýtast við margþætt verkefni nemenda. Þá var búningsaðstaða kvenna við skólann einnig stækkuð og bar brýna nauðsyn til þess þar sem konum hefur fjölgað til muna í nemendahópnum á síðustu árum.
Nú stunda 48 nemendur nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar skólans. Námið á þessari önn tekur fjóra mánuði og fara nemendur svo í átta mánaða starfsþjálfun. Að starfsþjálfun lokinni hefst svo þriðja og síðasta önnin sem lýkur með útskrift í lok apríl 2008. Meðalaldur nýnema í ár er 26 ár. Lögregluskólinn hefur nú auglýst eftir nýjum hópi umsækjenda sem mun hefja nám í september næstkomandi og ljúka því í desember 2008.
Byggt á fréttatilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu