21 Mars 2007 12:00

Samkvæmt samningi um árangursstjórnun sem undirritaður var í dag, miðvikudaginn 21. mars, leggur ríkislögreglustjóri fram tillögur til dómsmálaráðuneytisins að fjögurra ára löggæsluáætlun fyrir 15. apríl 2007. Þar eiga að koma fram helstu verkefni, forgangsröðun og áherslur embættisins til 30. apríl 2011. Samningnum er gert að skerpa á áherslum embættis ríkislögreglustjóra. Í honum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur dómsmálaráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra hvað varðar hlutverk og verkefni embættisins.

Embætti ríkislögreglustjóra gerir einnig sérstaka árangursstjórnunarsamninga við lögregluembættin í landinu fyrir árslok 2007. Þeir samningar eiga að taka mið af áherslum í löggæsluáætlun sem dómsmálaráðherra staðfestir. Embættið gerir einnig jafnréttisáætlun fyrir lögregluna í heild sinni sem á að vera tilbúin fyrir 1. september næstkomandi.

Í samningnum er ákvæði þess efnis að ríkislögreglustjóri skili ársskýrslu til ráðuneytisins í maímánuði á hverju ári. Þar verður gerð grein fyrir árangri af starfi embættis ríkislögreglustjóra og lögregluembættanna um land allt og árangurinn borinn saman við markmið ársáætlunarinnar.

Samningurinn er liður í nýskipan lögreglumála og framhald á nýju skipulagi embættis ríkislögreglustjóra sem kynnt hefur verið opinberlega.

Meðfylgjandi er ítarefni um efni og innihald samningsins, sjá hér.