31 Ágúst 2022 15:34

Fyrsti landssamráðsfundurinn um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess verður haldinn 9. nóvember nk. að undirlagi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ríkislögreglustjóri sér um skipulagningu og framkvæmd fundarins og er undirbúningur þegar hafinn.

Markmiðið með fundinum er að gefa fulltrúum ríkis, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, rannsóknastofnana og annarra sem láta sig þessi mál varða tækifæri til að bera saman bækur sínar, kynna nýjungar, niðurstöður rannsókna og koma á framfæri tillögum til úrbóta með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir ofbeldi. Landssamráðsfundur er ein þeirra aðgerða sem finna má í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019 til 2022.

Skráning er hafin á www.landssamradsfundur.is þar sem verður jafnframt hægt að nálgast uppfærðar upplýsingar um fundinn.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að Ísland eigi að vera í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn kynferðislegu, kynbundnu, líkamlegu og andlegu ofbeldi, og hvernig tekist er á við afleiðingar þess. Er það von mín að fyrsti landssamráðsfundurinn gegn ofbeldi og efling svæðisbundins samráðs gegn ofbeldi muni hjálpa okkur enn frekar í rétta átt.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri: „Reynsla okkar af þróun á verklagi vegna heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis og nú síðast þróun verklags lögreglunnar vegna barna í viðkvæmri stöðu hefur sýnt og sannað ítrekað mikilvægi þverfaglegrar samvinnu og samráðs til að vinna gegn ofbeldi og koma í veg fyrir ítrekunarbrot. Vegferðin í að draga úr og vonandi til framtíðar að stöðva ofbeldi heldur áfram.“

—–

Ríkislögreglustjóri mun styðja við áframhaldandi þróun á svæðisbundnu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Í lögreglulögum er ríkislögreglustjóra falið að annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi.