4 Júní 2008 12:00

Dagana 28 – 30. maí sl. fór fram árlegur samráðsfundur Norðurlanda um jafnrétti innan lögreglunnar.  Í ár fór Ísland fyrir samráðshópnum og var fundurinn haldinn á Hótel Búðum á Snæfellsnesi, í boði embættis ríkislögreglustjóra.

Á fundinum fluttu fulltrúar landanna erindi um stöðu, þróun og framtíðarsýn í jafnréttismálum innan lögreglunnar.  Einnig fór fram kynning á einstaka verkefnum á sviði jafnréttismála ásamt umfjöllun um niðurstöður þeirra og árangur.

Íslensku fulltrúarnir fjölluðu um áhrif nýrra jafnréttislaga á starfsumhverfi lögreglu og kynntu nýtt skipulag í jafnréttismálum innan lögreglunnar hér á landi.  Stefnt er að innleiðingu þess í haust ásamt miðlægri jafnréttis- og framkvæmdaáætlun. 

Samstarf Norðurlandanna á sviði jafnréttis innan lögreglunnar er mikilvægt.  Það eflir tengsl og veitir tækifæri til miðlunar á þekkingu og reynslu.  Á næsta ári verður samráðsfundurinn haldinn í Danmörku og er ætlunin að leggja þar sérstaka áherslu á framgang kvenna í stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. 

Fundargestir staddir við Fjöruhúsið, við Hellnar á Snæfellsnesi.