25 Október 2005 12:00

Ríkislögreglustjóri hefur gert samning til eins árs við Fræðslumiðstöð bílgreina hf. um framkvæmd bíltæknirannsókna vegna umferðarslysa. Fræðslumiðstöðin mun í samráði við embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra rannsaka ástand ökutækja sem lent hafa í alvarlegu umferðarslysi eða þar sem grunur leikur á að ástandi ökutækis sé verulega ábótavant.

Hagsmunir fjölmargra ráðast af því að vel sé vandað til slíkra rannsókna og má minna á að úrslit mála hafa í mörgum tilfellum oltið á því hversu vel þessara atriða hefur verið gætt.

Með samningnum er verklag við tæknirannsóknir umferðarslysa samræmt og eflt á landinu öllu og stórt skref stigið til vandaðri rannsókna umferðarslysa hjá lögreglu.

Myndin var tekin við undirritun samningsins hinn 20. október sl. en þar sjást Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Snorri S. Konráðsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar bílgreina hf. takast í hendur að undirskrift lokinni.