4 Febrúar 2010 12:00

Stjórnendur miðlægra rannsóknardeilda hjá lögregluembættunum í höfuðborgum Norðurlandanna hittust nýverið á fundi í Reykjavík. Um nokkurskonar samráðsfund var að ræða en á honum var skipts á upplýsingum og farið yfir stöðu og þróun mála. Fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru mjög ánægðir með fundinn og segja mikilvægt að lögreglumenn deili reynslu sinni með kollegunum og þá sé ekki síður nauðsynlegt að læra af reynslu annarra. Mörg sambærileg mál komi á borð lögregluembættanna en á fundinum í Reykjavík var m.a. fjallað um skipuleg afbrot útlendinga sem fara á milli landa og brjótast inn á heimili og í fyrirtæki. Öll Norðurlöndin hafa glímt við erlend þjófagengi af þessu tagi en flest þeirra, ef ekki öll, koma frá Austur-Evrópu. Á fundinum var einnig rætt um vændisstarfsemi og hvernig megi bregðast við henni.