23 Ágúst 2007 12:00

Dómsmálaráðherra, SÁÁ og lögregustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér samkomulag um náið og víðtækt samstarf og samvinnu um áfengis-og fíkniefnamálefni. 

Í fyrsta lagi er um það að ræða að SÁÁ mun veita lögreglunni greiðan aðgang fyrir einstaklinga með bráðan áfengis-og eða fíkniefnavanda að sjúkrahúsinu Vogi með því að tryggja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eitt sjúkrahús- og meðferðarpláss á degi hverjum allan ársins hring.  Þá mun SÁÁ koma að forvarnarmálum á þessu sviði með lögreglu og með kynningu og fræðslu fyrir lögreglumenn.  Í þriðja lagi mun sjúkrahúsið Vogur taka við einstaklingum sem dæmdir hafa verið í fangelsi með því skilyrði að ekki komi til afplánunar fangelsisrefsingar ef viðkomandi, sem fyrir liggur að er háður áfengis-eða fíkniefnum, fari í viðeigandi meðferð, ljúki henni og standist eftirmeðferð og eftirlit sem henni fylgir.

Samkvæmt samkomulaginu mun SÁÁ tryggja lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eitt pláss á sjúkrahúsinu Vogi á degi hverjum.  Það gefur lögreglu möguleika á að hafa milligöngu um að allt að 365 einstaklingar á ári sem eru í brýnni þörf fyrir meðferð geti komist að í kjölfar þess að lögregla hefur haft afskipti af þeim eða haft ástæðu til þess að grípa inn í líf þeirra.  Lögreglan hefur ekki áður haft tryggingu fyrir því að sjúkrastofnanir almennt taki við einstaklingum undir slíkum kringumstæðum og því hefur oft verið bið á því að unnt sé að finna lausn á brýnum vanda slíkra einstaklinga og aðstandenda þeirra.  Samkomulagið við SÁÁ breytir og bætir þessa stöðu verulega.

Þá nær samkomulagið til þess að SÁÁ taki til meðferðar einstaklinga, háða áfengi eða fíkniefnum, þegar áfengis-og eða fíkniefnameðferð  hefur verið sett sem skilyrði fyrir því að viðkomandi þurfi ekki að afplána fangelsisrefsinguna.  Lög hafa heimilað að setja meðferð vegna áfengis- og fíkniefnasýki sem skilyrði fyrir því að þurfa ekki að afplána fangelsisrefsingu, en þar sem engin skylda hvílir á sjúkrastofnunum að taka einstaklinga til meðferðar undir slíkum kringumstæðum hefur þetta úrræði ekki verið nægilega virkt.  Samkomulagið gerir ráð fyrir að þegar sakamál gegn einstaklingum þar sem þessi skilyrði geta átt við eru undirbúin fyrir dómsmeðferð, muni sjúkrahúsið Vogur, að frumkvæði ákæranda, framkvæma greiningu á meðferðarþörf og gera áætlun um meðferð, eftirmeðferð og eftirlit sem ákæruvald leggur fyrir dómara.  Með þessu hefur dómari skýran kost til þess að taka afstöðu til og getur þá bundið sem skilyrðið fyrir því að dómþoli þurfi ekki að afplána fangelsisrefsingu að hann standi við slíka meðferð og standist eftirlit í kjölfarið.  Samkomulag er um að SÁÁ taki dómþola í áfengis- og fíkniefnameðferðina í kjölfar dóms.