7 Júní 2007 12:00
Þann 30. maí s.l. var haldinn fyrsti fundur Samstarfsnefndar lögreglu og sveitarfélaga í nýju umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli. Fundinn sátu, auk yfirmanna lögreglu, sveitastjórar sveitarfélagana 5 sem eru í umdæminu þ.e. Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps. Á fundinum kynnti lögreglustjóri embætti lögreglunnar á Hvolsvelli, skipulag og helstu áherslur. Ræddar voru forvarnir í umdæminu og hvernig mætti efla þær.
Samkvæmt 12. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal í hverju lögsagnarumdæmi starfa samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar. Nefndin er vettvangur fyrir samskipti og samvinnu lögreglunnar og sveitarfélagana. Hún gerir m.a. tillögur um úrbætur í málefnum sem varða löggæslu í umdæmi hennar og beitir sér fyrir því að almenningi verði kynnt starfsemi lögreglunnar
Á meðfylgjandi mynd má sjá samstarfsnefndina, en frá vinstri má telja: Svein Pálsson, sveitastjóra Mýrdalshrepps, Unni Brá Konráðsdóttur, sveitastjóra Rangárþings eystra, Bjarna Daníelsson, sveitastjóra Skaftárhrepps, Örn Þórðarson, sveitastjóra Rangárþings ytra, Eydísi Þ. Indriðadóttur, oddvita Ásahrepps, Svein K Rúnarsson, yfirlögregluþjón, Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóra og Kristínu Þórðardóttur, fulltrúa lögreglustjóra