1 Febrúar 2010 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samning um aukið samstarf á sviði öryggis- og forvarnamála í Reykjavík. Markmið hans er að stuðla að auknu öryggi almennings í borginni með markvissu samstarfi þessara aðila. Í því felst m.a. að áhersla er lögð á samstarf lögreglu og starfsmanna þjónustumiðstöðva um forvarnir og fjölskylduþjónustu ásamt því að draga úr fjölda umferðarslysa. Vegna þess síðastnefnda er lögð sérstök áhersla á umferðaröryggi við skóla. Í samningnum er sömuleiðis kveðið á um eftirlit og forvarnir í því skyni að draga úr innbrotum og eignaspjöllum. Samninginn í heild sinni má nálgast hér en hann gildir til tveggja ára. Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu samninginn en þau eru einmitt á myndinni hér að neðan.