17 Febrúar 2014 12:00

Ríkislögreglustjóri, tollstjóri, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Sérstakur saksóknari hafa gert með sér samstarfssamning um starf tengifulltrúa Íslands hjá Europol. Samstarfssamningurinn byggist á samningi Íslands og Europol frá árinu 2001 sem gerir ráð fyrir því að Ísland geti tilnefnt sérstakan tengifulltrúa hjá stofnuninni, sem staðsett er í Haag í Hollandi.

Samstarf Íslands og Europol á sviði löggæslu og öryggismála hefur verið á mörgum sviðum og hefur það haft mikla þýðingu í tengslum við lögreglurannsóknir sem teygt hafa anga sína til annarra landa. Þá felur samstarfssamningurinn í sér að sérfræðingar á vegum Europol hafa komið hingað til lands og aðstoðað í tengslum við rannsóknir sakamála.

Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur gegnt starfi tengifulltrúa Íslands hjá Europol undanfarin ár. Hann lætur af þeim störfum 1. júlí næstkomandi en þá mun Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn taka við starfi tengifulltrúa.

Karl Steinar Valsson        Arnar Jensson