12 Nóvember 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Mosfellsbær hafa gert með sér samning um aukið öryggi og samvinnu á sviði löggæslu- og forvarnarmála í Mosfellsbæ. Markmið samningsins er að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og annarra í Mosfellsbæ, m.a. með markvissri samvinnu lögreglu og starfsmanna sveitarfélagsins, sameiginlegri miðlun og greiningu upplýsinga og samvinnu um aukið og skipulagt eftirlit í sveitarfélaginu. Samningurinn var kynntur á árlegum fundi sem lögreglan átti með lykilfólki í Mosfellsbæ í gær en myndin hér að ofan var tekin við það tækifæri. Á henni takast í hendur Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri en samninginn má nálgast með því að smella hér.
Þess má geta að skömmu eftir að fundinum lauk var óskað eftir liðveislu lögreglu vegna unglinga sem voru að sparka í ljósastaura í Grafarvogi. Lögreglustjóri og aðstoðarlögreglustjóri voru þá ekki langt undan og voru því sendir í útkallið. Á vettvangi voru þrír piltar, 12 og 13 ára, og var þeim gerð grein fyrir alvarleika málsins, t.d. að af þessu hlytist tjón. Strákarnir voru heldur skömmustulegir og lofuðu bót og betrun. Þetta er nefnt hér því á fyrrnefndum fundi var einmitt verið að tala um mál sem snúa m.a. að börnum og unglingum. Þegar þau villast af réttri braut er mikilvægt að grípa strax inn í. Í því felst m.a. að tilkynna um það til lögreglu því hún bæði getur og vill koma til aðstoðar.