3 Mars 2008 12:00

Lögreglustjórinn á Selfossi, Ólafur Helgi Kjartansson, hefur sett af stað hjá embættinu sáttamiðlun í sakamálum sem er nýtt úrræði sem á að vera til hagsbóta fyrir þolendur, gerendur og samfélagið. Verkefnið er tilraun sem Dómsmálaráðuneytið stendur að.  Síðastliðinn föstudag urðu svo þau tímamót hjá lögreglunni á Selfossi að fyrsta sáttamiðlunin var frágengin.  Það var Rúnar Þór Steingrímsson rannsóknarlögreglumaður sem var sáttamaður í eignaspjallamáli sem kom upp á síðasta ári.  Rúnar naut aðstoðar Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar sem starfar við þetta verkefni hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Gerendur og þolendur voru boðaðir á lögreglustöðina á Selfossi þar sem gerður var samningur um að gerendur bættu þann skaða sem þeir ollu gegn því að þolandi gerði ekki refsikröfu á hendur þeim.  Standi gerendur við samninginn verður þeim ekki gerð sérstök refsing fyrir brotið og brotið færist ekki á sakaskrá. Rjúfi þeir samkomulagið verður málið tekið upp og gefin út ákæra vegna brotsins.  Mikil ánægja var hjá aðilum málsins að lokinni sáttamiðluninni.  Ávinningurinn á að vera sá fyrir þolanda að hann fær tjón sitt tryggilega bætt auk þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að beina brotamanni af óheillabraut.  Ávinningur brotamanns er sá að hann fær tækifæri til að hitta þann sem hann braut gegn og horfast í augu við afleiðingarnar og breyta hugarfari sínu um rétt og rangt í heimi réttvísinnar.

Sáttamiðlun á einungis við í minni háttar hegningarlagabrotum svo sem þjófnaðar, gripdeildar, húsbrots, hótunar, eignaspjalla, minni háttar líkamsárásar, nytjastuldar og minni háttar brota gegn valdstjórninni.  Þeir sem eiga kost á sáttamiðlun eru þeir gerendur sem hafa játað brot sitt og hafa ekki áður gerst sekir um alvarleg eða ítrekuð hegningarlagabrot.  Einnig geta þolendur sem vilja sanngjarna lausn mála sinna átt kost á sáttamiðlun. 

Hugmyndin með sáttamiðlun er sú að fyrirbyggja frekari brot, auka öryggi borgaranna.  Jafnframt leiðir þetta til skjótari málsmeðferðar og léttir álagi af refsivörslukerfinu.  Nokkrir lögreglumenn á Selfossi, ásamt lögreglustjóra, hafa sótt námskeið og þjálfun í sáttamiðlun og er þess vænst að í framtíðinni verði hægt að ljúka þeim málum sem tæk eru með sáttamiðlum öllum til hagsbóta.