20 Mars 2013 12:00

Fjórtán manna hópur vinnur nú að því búa til Umferðarsáttmála, en í honum verður að finna einskonar boðorð sem allir vegfarendur í umferðinni munu vonandi leitast við að fara eftir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samstarfi við Umferðarstofu, hafði frumkvæðið að verkefninu en auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum á fésbókarsíðu embættisins. Fjölmargir sýndu þessu áhuga, en fjórtán voru síðan valdir til þátttöku. Í hópnum eru bæði karlar og konur, en fólkið er á öllum aldri. Hópurinn kom saman til fyrsta fundar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í byrjun mánaðarins og var myndin hér að ofan tekin við það tækifæri, en tveir þátttakendur áttu reyndar ekki heimangengt þann daginn. Á myndinni er einnig Stefán Eiríksson lögreglustjóri, en hann gegnir hlutverki fundarstjóra hjá hópnum. Annar fundur hópsins var haldinn í síðustu viku, en verkefninu miðar vel áfram og eru þátttakendur sammála um að hér sé á ferðinni skemmtilegt tækifæri til að bæta umferðarmenninguna hér á landi. Á milli funda fer vinna hópsins einkum fram á fésbókinni, en allir landsmenn geta lagt til hugmyndir um það hvernig best sé að móta jákvæða umferðarmenningu. Heimasíðu hópsins er að finna hér.