25 Febrúar 2013 12:00

Tveir ökumenn voru handteknir um helgina vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Annar ökumannanna, karlmaður um tvítugt var hvorki með ökuskírteini né persónuskilríki meðferðis. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu að hann hafði neytt kannabisefna.

Hinn ökumaðurinn, sautján ára piltur, reyndist einnig hafa neytt kannabisefna. Lögregla hafði samband við foreldra hans, auk þess sem barnaverndarnefnd Reykjanessbæjar var gert viðvart um málið.

Þá var einn ökumaður til viðbótar handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur.

Úr axlarlið í fótboltaleik

Lögreglan á Suðurnesjum var í gærdag kvödd í Reykjaneshöllina vegna íþróttaslyss sem þar hafði orðið. Þar hafði stúlka lent í samstuði við annan leikmann í fótboltaleik. Hún var flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Í ljós kom að hún hafði farið úr axlarlið við höggið.

Ölvaður ökumaður velti bíl

Ölvaður ökumaður velti bifreið Í Keflavík um helgina. Þegar lögreglan á Suðurnesjum mætti á vettvang kom í ljós að tveir karlmenn voru í bifreiðinni, báðir töluvert ölvaðir, en ekki sýnilega slasaðir. Ökumaðurinn hafði ekið í beygju á talsverðum hraða og ók utan í grjót í vegkanti, með þeim afleiðingum af bifreiðin valt og rann eina tíu metra á toppnum, áður en hún staðnæmdist. Lögregla handtók mennina og voru þeir í kjölfarið fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til frekari skoðunar. Þeir voru yfirheyrðir í gærdag, þegar þeir voru búnir að sofa úr sér í fangaklefa og látnir lausir að því loknu.

Þrjú umferðaróhöpp til viðbótar urðu í umdæminu um helgina, en engin slys á fólki.

Með amfetamín í vasanum

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í fyrrinótt afskipti af karlmanni um fertugt, við hefðbundið eftirlit með veitingahúsum í umdæminu. Hann reyndist vera með um gramm af amfetamíni í buxnavasa sínum. Mál hans fer í hefðbundinn farveg.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.