6 Júlí 2008 12:00

Lögreglan á Akureyri fékk í gærkvöld tilkynningu um mann sem að hefði stolið myndavél á bæ í Hörgárdal í gærkvöld. Húsráðandi kom að manninum inni í bænum en þjófurinn hljóp út er hann varð var við húsráðanda og upp í bifreið en annar aðili beið í bifreiðinni fyrir utan bæinn.  Náði þjófurinn að hafa á brott með sér myndavél. Húsráðandi gaf lögreglu lýsingu á manninum og bifreið sem að hann var á.  Lögreglumennirnir sem að fóru og ræddu við húsráðanda á bænum hófu strax leit að manninum og bifreiðinni en án árangurs.  Er annar lögreglumaðurinn sem að ræddi við húsráðandA í þessu máli var kominn heim til sín eftir vakt var bankað upp á hjá honum.  Lögreglumaðurinn fór til dyra en þar stóð maður sem að spurði til vegar og virkaði mjög undarlegur.  Lögreglumaðurinn spurði hann hvert erindi hans væri í hverfið og svaraði maðurinn að hann væri að leita að einhverjum manni sem að hann vissi ekki nákvæmlega hver væri. Maðurinn hélt síðan för sinni áfram en hann virkaði í annarlegu ástandi. Lögreglumaðurinn hafði strax samband við lögreglustöðina á Akureyri og óskaði eftir aðstoð. Lögreglumaðurinn fylgdi manninum eftir en lögreglumaðurinn áttaði sig á því að lýsingin á þjófinum í Hörgárdal passaði við þennan aðila. Lögreglumaðurinn missti sjónar af manninum um stund en er hann var að leita að honum aftur sá hann bifreið sem að passaði við lýsinguna á bifreiðinni sem að hafði verið notuð við þjófnaðinn fyrr um daginn og voru tveir aðilar í bifreiðinni og virtust þeir vera að bíða eftir einhverjum.  Lögreglumaðurinn fylgdist með bifreiðinni en stuttu síðar kom aðilinn sem að bankaði hafði upp á hjá honum að bifreiðinni en var þá með íþróttatösku meðferðis. Bifreiðinni var ekið af stað en lögreglumenn á vakt sem að voru á leið til aðstoðar, stöðvuðu bifreiðina rétt eftir að henni var ekið af stað.

Aðilarnir í bifreiðinni voru handteknir og kom þá í ljós að í íþróttatöskunni var þýfi úr íbúð á Akureyri en aðilinn hafði brotist inn í þá íbúð skömmu áður en þeir voru stöðvaðir.  Einnig viðurkenndi sá að hafa farið inn í bæinn í Hörgárdal og stolið þaðan myndavél.  Aðilarnir þrír voru fluttir á lögreglustöðina á Akureyri en ökumaður bifreiðarinnar var einnig kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglu grunar að hugsanlega hafi þjófurinn bankað upp á hjá lögreglumanninum til að kanna hvort að einhver væri heima en það er vel þekkt að innbrotsþjófar banka upp á eða hringja inn í þau hús sem að þeir hyggjast brjótast inn í til að ganga úr skugga um að enginn sé heima. Lögreglan á Akureyri hvetur íbúa til að vera vel á varðbergi og tilkynna um grunsamlegar mannaferðir.  

Þó nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri í gærdag og í nótt. En helstu verkefni voru:

Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu um bílveltu á Grenivíkurvegi um klukkan hálf þrjú í gærdag. Þar hafði jeppi lent í árekstri við fólksbifreið með þeim afleiðingum að jeppinn valt og fór nokkrar veltur á veginum. Tveir aðilar voru í jeppabifreiðinni og voru þeir fluttir á slysadeild til skoðunar. Aðilarnir í fólksbifreiðinni sluppu með minniháttar meiðsli.  Bifreiðarnar voru fluttar með dráttarbifreið til Akureyrar en bifreiðarnar eru taldar ónýtar.

Tilkynnt var um sjö leytið í gærkvöld um að ekið hefði  verið á barn á reiðhjóli í Kaupvangsstræti. Lögregla og sjúkralið voru send á staðinn.  Í ljós kom að bifreið hafði verið ekið út af bifreiðastæði við Kaupvangsstræti og í veg fyrir 8 ára dreng á reiðhjóli sem að lenti utan í bifreiðinni. Drengurinn kvartaði undan eymslum í fæti. Drengurinn var færður á slysadeild til skoðunar.

Tilkynnt var um umferðarslys á Drottningarbraut á Akureyri um níu leytið í gærkvöldi en þar var bifreið ekið á ljósastaur.  Ökumaður sem að var einn í bifreiðinni kvartaði undan meiðslum í hálsi og baki.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Bifreiðin er talin ónýt.

Mikill fjöldi var í miðbæ Akureyrar í nótt og töluverður erill hjá lögreglumönnum en þó gekk allt stór áfallalaust fyrir sig. Einnig var töluvert af fólki saman komið við skemmtanahald á Dalvík og Ólafsfirði í nótt en nokkur ættarmót og samkomur voru haldin þar og fór það að mestu vel fram.