11 September 2006 12:00
Nokkuð ber á því að fólk hendi rusli á götur borgarinnar eða annars staðar á almannafæri. Það er að sjálfsögðu með öllu óheimilt enda telst það brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Sekt í slíkum tilfellum ákvarðast eftir eðli og umfangi brots en hún er þó aldrei lægri en 10 þúsund krónur.
Lögreglan í Reykjavík tekur fast á slíkum brotum enda á sóðaskapur ekki að líðast. Borgarar, sem verða vitni að slíkri háttsemi, eru jafnframt hvattir til að tilkynna það til lögreglunnar. Sóðaskapurinn getur komið fram í ýmsum myndum. T.d. ber nokkuð á því að ökumenn eða farþegar bifreiða henda frá sér sígarettustubbum. Það er klárlega brot á lögreglusamþykktinni en í sumar hafa nokkrir verði teknir fyrir þær sakir.
Að síðustu er rétt að minna á 8. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar en í henni segir m.a.: Öllum ber að gæta þess að ganga vel um á almannafæri, valda þar ekki óþrifum og skemma þar ekki hluti, sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði. Enginn má fleygja rusli á almannafæri nema í þar til gerð ílát.