15 Nóvember 2012 12:00
Seltirningar eru í góðum málum þegar afbrot eru annars vegar því þeim hefur fækkað umtalsvert í sveitarfélaginu frá árinu 2007. Þannig hefur innbrotum fækkað um meira en helming frá þessum tíma og ofbeldisbrotum ennþá meira. Sé það neikvæða dregið fram er helst að nefna að eignaspjöllum hefur fjölgað aðeins á umræddu tímabili. Umferðarslys eru ekki mörg á Seltjarnarnesi og hefur svo verið undanfarin ár. Og samkvæmt hraðamælingum lögreglunnar síðustu misserin er akstur langflestra ökumanna, sem eiga leið um þetta sveitarfélag, til mikillar fyrirmyndar.
Þessi góðu tíðindi voru kynnt Seltirningum á fundi þeirra með fulltrúum lögreglunnar, sem haldinn var í gær. Þar var jafnframt greint frá niðurstöðum netkönnunar, sem ber yfirskriftina Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur m.a. fram að flestir Seltirninga telja lögregluna skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum, en 77% þeirra töldu svo vera. Rúmlega helmingur þeirra, eða 55%, telja lögreglu aðgengilega, svo nefnt sé annað dæmi úr könnuninni. Tölfræðina frá fundinum í gær má annars nálgast með því að smella hér.
Frá Seltjarnarnesi.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is