10 Nóvember 2010 12:00

Það lá vel á fundarmönnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hitti á Seltjarnarnesi í gær. Um var að ræða árlegan fund lögreglunnar með lykilfólki í sveitarfélaginu en á honum var m.a. farið yfir þróun brota á Seltjarnarnesi. Óhætt er að segja að staða mála sé almennt góð enda ekki mikið um afbrot. Þessir fréttir eru svosem ekki nýjar af nálinni enda hefur þessi staða verið viðvarandi undanfarin ár. Þetta á t.d. við um innbrot á heimili en þeim hefur fækkað hlutfallslega frá árinu 2007. Þróun allra brota á Seltjarnarnesi 2007 til 2010, sem og ýmsar aðrar upplýsingar frá fundinum í gær, má nálgast hér. 

Fulltrúum Seltirninga var ennfremur kynnt stefna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og áherslur hennar en eitt af markmiðum embættisins er að auka öryggistilfinningu íbúa. Samkvæmt könnun lögreglunnar telja langflestir íbúar sveitarfélagsins sig örugga þegar þeir eru einir á ferð í byggðarlaginu. Könnunin náði einnig til íbúa í miðborginni og vesturbæ Reykjavíkur en verkefnum þar og á Seltjarnarnesi sinnir lögreglustöð 5 en höfðustöðvar hennar eru á Hverfisgötu 113-115, Reykjavík. 83% íbúa á þessu svæði töldu sig örugga þegar þeir svöruðu áðurnefndri spurningu og tæplega 90% töldu lögregluna sinna mjög eða frekar góðu starfi á þeirra svæði. Athygli vakti hinsvegar að fjórðungur íbúanna taldi lögregluna ekki nógu aðgengilega á þeirra svæði þegar um það var spurt í sömu könnun. Það er atriði sem lögreglan tekur til sín og vill bæta.