29 Október 2009 12:00

Seltirningar eru í góðum málum þegar afbrot eru annars vegar því brot þar eru færri en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru svosem engin ný tíðindi og komu því fundarmönnum ekki óvart þegar farið var yfir þróun brota á Seltjarnarnesi undanfarin ár. Árlega er haldinn slíkur fundur með lögreglunni og lykilfólki í sveitarfélaginu en fundurinn var einmitt haldinn í gær. Hann var mjög vel sóttur en fundarmenn voru rúmlega þrjátíu talsins en fundað var í húsakynnum bæjarstjórnar á Austurströnd 2. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglustöðvar 5, hafði orðið í upphafi en hann fór yfir helstu breytingar sem hafa átt sér stað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Hann notaði jafnframt tækifærið og óskaði eftir áframhaldandi góðu samstarfi við fulltrúa sveitarfélagsins sem og íbúa alla á Seltjarnarnesi.

Þessu næst fór Hákon B. Sigurjónsson lögreglufulltrúi yfir tölfræðina en þegar rýnt er í hana kemur m.a. í ljós að innbrot á Seltjarnarnesi voru mun færri árið 2008 en árin á undan. Sama á við þegar ofbeldisbrot og eignaspjöll eru skoðuð en þeim fækkaði á tímabilinu, þ.e. árið 2008 í samanburði við meðaltal áranna 2006-2007. Sé litið til þessa árs hefur innbrotum á Seltjarnarnesi ekki fækkað miðað við fyrstu níu mánuðina í fyrra en sama gildir reyndar líka fyrir aðra staði á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan býst þó fastlega við að innbrotum fækki núna á síðasta ársfjórðungi enda hafa nokkrir stórtækir innbrotsþjófar verið handteknir. Á fundinum var einnig farið yfir umferðarmál en það gerði Jóhann Karl Þórisson aðalvarðstjóri. Í þeim málum er almennt gott ástand á Seltjarnarnesi. Tölfræðina í heild sinni má annars nálgast með því að smella hér.

Ekki var annað að sjá og heyra en fundarmenn væru almennt nokkuð sáttir með gang mála á Seltjarnarnesi. Samkvæmt könnun um reynslu íbúa á höfuðborgarsvæðinu af lögreglu, öryggi og afbrotum er það líka raunin. Þannig eru t.d. næstum 90% íbúa á Seltjarnarnesi þeirrar skoðunar að lögreglan skili almennt góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Enn fleiri Seltirningar, eða 95%, telja sig örugga þegar þeir eru einir á ferð í byggðarlaginu eftir að myrkur er skollið á. Þetta og margt fleira kom fram í áðurnefndri könnun en það var Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem kynnti þessar niðurstöður sem er hægt að skoða betur með því að smella hér.

Eins og fyrr segir var fundurinn mjög vel sóttur og áhugi fundarmanna mikill. Eins og oft áður voru umferðarmálin nokkuð til umræðu og einnig sú staðreynd að lögreglustöð er ekki lengur starfrækt í bænum. Til stendur að opna nýja stöð á svæði lögreglustöðvar 5 en staðsetning hennar hefur ekki verið ákveðin. Lokaorðin átti Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri en hún þakkaði lögreglunni fyrir komuna og lýsti yfir mikilli ánægju með þessa árlegu fundi.