24 Júní 2014 12:00

Mánudaginn 23. júní komu lögreglumenn frá Hvolsvelli, Selfossi, Suðurnesjum, Höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi saman við Geysi ásamt starfsmönnum Samgöngustofu, Ríkisskattstjóra og Frumherja til eftirlits með umferð þar.   Eftirlitið stóð frá kl. 10:00 til kl. 15:00 og voru samtals 184 ökutæki stöðvuð.   Tuttugu og þremur þeirra vísuðu lögreglumenn til skoðunar í færanlegri skoðunarstöð Frumherja sem komið hafði verið fyrir á efra planinu við Geysi en Frumherji býr yfir slíkri stöð í „trailervagni“ ásamt hemlaprófara sem fluttur er á palli bifreiðar.   Af þessum bifreiðum voru 7 hópbifreiðar (tvær þeirra breyttar), 3 breyttar bifreiðar í einkaeigu og 15 fólksbifreiðar.   13 fengu athugasemdir vegna ástands og var vísað til endurskoðunar.  Af þeim 13 sem athugasemdir fengu voru 6 bílaleigubílar, 2 breyttar bifreiðar og 5 hópbifreiðar. 

Starfsmenn samgöngustofu athuguðu leyfamál hjá ökumönnum á 19 rútum, 6 jeppum með s.k. jeppaleyfi, 7 bílaleigubílum og 3 leigubílum.

Starfsmenn ríkisskattstjóra höfðu afskipti af 69 ökutækjum og munu vinna úr þeim upplýsingum er þar fengust og bera sama við þau gögn sem fyrir liggja hjá skattayfirvöldum varðandi rekstur og skattaskil en verkefnið er að ná utan um s.k. svarta atvinnustarfsemi ef hennar verður vart.

Verkefni þetta er liður í samstarfsverkefni sem Samstarfsnefnd lögregluliða á SV landi hóf í fyrravor og snýr m.a. að eftirliti með ástandi og leyfamálum bílaleiga.  Að þessu sinni var það útvíkkað til þess að ná til fleiri aðila í ferðaþjónustu og voru þeir sem að eftirlitinu komu sammála um að þetta form hefði gefist vel og tilefni væri til að hafa framhald á, ekki síst þegar fjöldi skemmtiferðaskipa eru í höfn með tilheyrandi gestagangi.   Til gamans má geta þess að á vettvangi fengu lögreglumenn upplýsingar um að þegar upp úr  kl. 10:00 hafi einhver tekið sig til og sent SMS á tiltekinn hóp í ferðaþjónustunni um eftirlit lögreglu, ríkisskattsttjóra og samgöngustofu á þessum stað.