6 Maí 2011 12:00

Sérsveitarmenn og lögreglumaður úr samningahópi sérsveitar glímdu við erfitt verkefni fyrr í dag ásamt lögreglumönnum frá LRH þegar maður hugðist kveikja í sjálfum sér í húsnæði Rauða krossins í Efstaleiti.  Mikil hætta skapaðist fyrir manninn sjálfan og aðra sem voru á staðnum.  Maðurinn hafði hellt yfir sig bensíni og stóð í bensínpolli með kveikjara í báðum höndum.  Samningamaður sérsveitar reyndi með aðstoð starfsmanns Rauða krossins og einnig frá Útlendingastofnun að tala manninn til.  Þegar ljóst var að fortölur bæru ekki árangur og maðurinn gerði sig líklegan til að kveikja í sér brugðust sérsveitarmenn strax við og yfirbuguðu manninn og notuðu við aðgerðina duftslökkvitæki til að afstýra því að hann næði að kveikja í sér.  Menn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru einnig á vettvangi og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem fer með forræði og rannsókn málsins. 

Sérsveitin starfar eftir sérstöku aðgerðarskipulagi ríkislögreglustjóra við verkefni sem þessi og hjá embættinu er starfræktur samninga- og fortöluhópur sérsveitar.  Hann er mannaður lögreglumönnum frá fjarskiptamiðstöð, alþjóðadeild og almannavarnadeild embættisins.  Viðkomandi hafa hlotið þjálfun hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI.  Við verkefni sem þessi er einnig kallað til sjúkra- og slökkvilið til öryggis.