25 Febrúar 2021 17:29

Stöðufundur var í morgun með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúum Múlaþings, Veðurstofu og fleirum. Farið var yfir stöðu hreinsunarstarfs, vöktunarmæla, rýmingaráætlana og fleira.

Síðustu vikuna hefur mest verið unnið við hreinsun á skriðusvæðinu í kringum Slippinn. Lítið hefur verið hægt að vinna í varnargörðunum vegna bleytu. Miðvikudaginn 24.02 voru settir niður 5 síritandi grunnvatnsmælar í viðbót í Neðri-Botnum. Þar með er heildarfjöldi grunnvatnsmæla í Neðri-Botnum orðinn 10 stk. Nú er verið að vinna að undirbúningi á breytingu á farvegi Búðarár við Hafnargötu, þar er mikið af lögnum sem þarf að huga að sem og hæðarlega Hafnarvegar. Einnig er í undirbúningi að hefja vinnu við bráðavarnir ofan við ytri hluta Botnahlíðar í samráði við íbúa.

Unnið er að líkanreikningum sem liggja til grundvallar bráðabirgðahættumati fyrir svæðið við Múla. Áhrifasvæði skriðna úr óhlaupnum flekum hafa verið kortlögð og nú beinast sjónir að skriðum sem geta fallið úr þelaurðinni undir Strandartindi. Vonast er til að ljúka þeim líkanreikningum að mestu í þessari viku. Í framhaldinu verður hættan á öðrum svæðum neðan Botnabrúnar metin út frá líkanreikningum og fyrirliggjandi upplýsingum.

Lokið hefur verið við að koma fimm síritandi vatnshæðarmælum fyrir í borholum og bætast þeir við þá fimm sem fyrir voru. Verið er að undirbúa fjölgun GPS stöðva og stendur til að bæta 6 við þær 3 sem þegar hafa verið settar upp. Fengist hefur tilboð í síritandi aflögunarmæla fyrir tvær borholur og tvo togmæla yfir sprungur. Aflögunarmælarnir geta sýnt hreyfingu á skriðflötum í jarðlögum en togmælarnir sýna gliðnun sprungna á yfirborði.

Farið verður í vinnu við endurskoðun aðalskipulags fyrir svæðið í heild er endurskoðað hættumat liggur fyrir, sem verður væntanlega í byrjun sumars, en unnið er að því af sérfræðingum Eflu og Veðurstofunnar.

Verið er að leggja lokahönd á rýmingaráætlanir og kort til kynningar fyrir íbúa og viðbragðsaðila. Vonir standa til að þeirri vinnu ljúki fljótlega.

Þjónustumiðstöð:

Frá og með föstudeginum 26. feb hættir viðvera starfsfólks í þjónustumiðstöð almannavarna á Seyðisfirði. Áfram verður tekið á móti erindum í síma 839-9931 eða með tölvupósti sey@logreglan.is. Spurningar sem hafa borist í kjölfar íbúafunda og til þjónustumiðstöðvar eru settar með svörum á vef Múlaþings, mulathing.is jafnóðum og þau berast. Þar má finna fróðleik og svör við mörgum spurningum. Félagsþjónusta Múlaþings býður upp á viðtöl á mánudögum í Íþróttahúsi Seyðisfjarðar. Sálfræðiþjónusta er í boði á miðvikudögum á heilsugæslu HSA á Seyðisfirði, athugið að panta þarf tíma hjá HSA 470-3000 eða hægt að fá aðstoð við tímabókanir hjá félagsþjónustunni eða þjónustumiðstöð almannavarna í Herðubreið.