2 Febrúar 2021 11:43

Stöðufundur var í gær með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúum Múlaþings og fleirum auk þess sem Veðurstofa var með innlegg. Farið var yfir stöðu hreinsunarstarfs og varnargarða, rýmingaráætlana og fleira.

Hreinsunarstarf er í ágætum farvegi  og vinna við frágang varnargarða langt komin. Vonir standa til að hreinsunarstarfi verði að mestu lokið um miðjan marsmánuð. Lokafrágangur fari svo fram í sumar. Stefnt er að því að kynna í upphafi hverrar viku áætlun um hreinsunarstarf þá vikuna á heimasíðu Múlaþings. Áætlunin verður einnig aðgengileg í þjónustumiðstöðinni í Herðubreið.

Vinna Veðurstofu að líkanareikningum vegna hættumats við skriðusvæðið miðar vel. Þrjú GPS tæki hafa verið sett upp í Neðri- botnum og eitt á láglendi til viðmiðunar. Þá hefur EFLA skilað frumathugunarskýrslu um svæðið við Stöðvarlæk.

Rýmingarkort hefur verið í vinnslu hjá Veðurstofu og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Vonir standa til að hægt verði að kynna kortið á íbúafundi eftir viku með leiðbeiningum fyrir íbúa og viðbragðsaðila.

Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er með opið í Herðubreið alla virka daga kl. 11-17 og svarar starfsfólk þar fyrirspurnum íbúa og annara tengdum aurskriðunum. Jafnframt er boðið upp á sálrænan stuðning og alltaf heitt á könnunni. Upplýsingamiðlun er í höndum Þjónustumiðstöðvarinnar í samvinnu við Múlaþing. Spurningar sem hafa borist vegna íbúafunda og til þjónustumiðstöðvar eru settar með svörum á vef Múlaþings jafnóðum og þær berast. Þær eru einnig þýddar á ensku og þýsku. Aurskriður í Seyðisfirði / Landslides in Seyðisfjörður | Múlaþing (mulathing.is)

Félagsþjónusta Múlaþings býður upp á viðtöl á mánudögum í Íþróttahúsi Seyðisfjarðar sjálfræðiþjónusta er í boði á miðvikudögum á heilsugæslu HSA á Seyðisfirði.