23 Apríl 2015 09:47

Ríkislögreglustjóri tengir lögreglubíla við miðlægt upplýsingakerfi lögreglu

Þróunarverkefni

Fyrir nokkrum misserum ákvað ríkislögreglustjóri að þróa hugbúnað fyrir spjaldtölvur í lögreglubíla. Samið var við danska fyrirtækið Blue Fragments A/S um hönnun á nýju viðmóti lögreglukerfisins fyrir spjaldtölvur í lögreglubíla. Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Suðurnesjum tóku þátt í þróunarverkefninu. Niðurstaðan varð sú að verkefnið heppnaðist ágætlega og er nú svo komið að ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að setja spjaldtölvur í sex nýja lögreglubíla sem afhentir verða lögreglustjóranum á Suðurnesjum og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Spjaldtölvur veita upplýsingar og auðvelda vinnu lögreglumanna á vettvangi

Sú lausn sem var valin gerir öll nauðsynleg gögn og upplýsingar aðgengileg hvenær og hvar sem er og í rauntíma. Samtímis er öryggi gagna tryggt. Fjölrása beinum er komið fyrir í bílunum til að tryggja netsamband milli spjaldtölvunnar og miðlægra kerfa lögreglunnar.

Aukin þjónusta við almenning og vinnuhagræðing

Með þessari nýju tækni á þjónusta við almenning að aukast og stuðlað er að vinnuhagræðingu lögreglumanna. Komið er í veg fyrir margverknað og geta lögreglumanna í starfi á vettvangi er styrkt.

Til framtíðar litið

„Lögreglan stefnir í átt að aukinni tækni og vísindum á öllum sviðum. Ríkislögreglustjóri á og rekur um 160 lögreglubíla og er stefnt að því að um 100 verði búnir spjaldtölvum og tengdir upplýsingakerfum lögreglu á næstu árum, ef vel tekst til,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri