4 Júní 2007 12:00
Mikill erill var hjá lögreglunni í umdæminu um helgina. Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur. Fjórir í Fjarðabyggð og einn á Höfn.
Nú hafa 35 ökumenn verið teknir fyrir ölvun við akstur miðað við 15 á sama tíma í fyrra. Þessi staðreynd er mikið áhyggjuefni lögreglunnar en jafnframt samfélagsins alls. Ekki þarf að tíunda það frekar hér hvaða afleiðingar þessi háttsemi hefur iðulega í för með sér.
Aðfararnótt 03 júní 2007.
Mikið og öflugt dansleikjahald var í tengsum við sjómannadaginn á fimm stöðum í umdæminu.
Á Höfn var gerður aðsúgur að lögreglunni þar sem hún var við eftirlit með dansleik á Höfn. Lögreglumenn þurftu að beita Maceúða til að yfirbuga ólátaseggi, er að þeim var vegið. Einn lögreglumaður var sleginn í andlitið. Tveir menn gistu fangageymslur. Ein líkamsárás hefur verið kærð til lögreglu.
Þá var mikil unglingadrykkja í bænum á föstudagskvöld og stóð lögreglan í ströngu við að taka áfengi af börnunum.
Á Eskifirði var 500 manna dansleikur sem fór afar vel fram og gekk allt mjög vel þar.
Í Neskaupstað kom til handalögmála og einn gisti fangageymslur.
Á Fáskrúðsfirði var fjölmennur dansleikur sem fór mjög vel fram.
Á Djúpavogi var haldin Hammondhátíð sem fór vel fram.
Að öðru leyti fóru hátíðahöld sjómannadagsins vel fram með hefðbundnum hætti og myndarskap eins og ávallt er.