12 Maí 2016 11:58

Eins og komið hefur fram í fréttum varð sjóslys norðvestur af Aðalvík í gærmorgun. Leit hófst þegar báturinn, sem hefur verið gerður út frá Súðavík á strandveiðar, kom ekki fram í ferilvöktun Vaktstöðvar siglinga, og ekki náðist samband um borð.  Nærstaddir bátar hófu þá þegar leit og björgunarsveitir við Djúp fóru af stað. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang.  Báturinn fannst á hvolfi á reki í sjónum. Skipstjóri bátsins, sem var einsamall um borð, fannst í sjónum, af skipstjóra annars strandveiðibáts.  Maðurinn var hífður um borð í þyrlu LHG þar sem þyrlulæknir úrskurðaði hann látinn.

Báturinn var dreginn til hafnar í Bolungarvík um miðnættið í nótt og hann tekinn á land. Lögreglan á Vestfjörðum ásamt fulltrúa rannsóknarnefndar samgönguslysa eru nú að rannsaka bátinn m.t.t. orsaka slyssins.  Rannsókn málsins er á frumstigi og því ekki tímabært að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.