7 Júlí 2015 17:32

Laust fyrir kl. 0800 barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / vaktstöð siglinga viðvörun um að fiskiskipið Jón Hákon, BA-060 frá Bíldudal væri ekki að senda ferilvöktunarboð í sjálfvirka tilkynningaskyldu.  Síðasta staðsetning skipsins var skammt vestur af Aðalvík. Í framhaldinu hófu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / vaktstöð siglinga að reyna að ná sambandi við skipið í gegnum talstöðvarfjarskipti og síma auk þess að reyna að endursetja merkjasendingar frá skipinu í gegnum sjálfvirku tilkynningaskylduna. Haft var samband við nærliggjandi skip og báta og þeir beðnir að svipast um eftir Jóni Hákoni.  Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Ísafjarðardjúp voru kallaðar út.  Rétt fyrir kl. 0830 tilkynnti Mardís ÍS-400 að hún væri komin að Jóni Hákoni og að 3 skipverjum hefði verið bjargað af kili skipsins. Fjórði skipverjinn náðist um borð skömmu síðar og var hann án sýnilegra lífsmarka. Önnur skip og bátar komu fljótlega á vettvang en Mardís hélt áleiðis til Bolungarvíkur með skipbrotsmennina.  Skipbrotsmennirnir voru færðir um borð í Sædísi ÍS-067 sem hélt með þá áleiðis til Bolungarvíkur og áætlaði komu þangað um tíu leitið. Fagranesið ÍS-008 kom að Jóni Hákoni upp úr kl. 0830 og áætlaði að bíða við skipið þar sem það lá á hvolfi þar til björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar kæmu á staðinn.  Skömmu fyrir kl. 0900 tilkynnti Fagranesið að Jón Hákon væri sokkinn.  Samkvæmt skipum og bátum á svæðinu var hægur norðlægur vindur og lítil ölduhæð.

Rétt fyrir kl.10:00 kom Sædís ÍS-067 til hafnar í Bolungarvík með skipverjana þrjá.  Þeir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar og aðhlynningar.  Þeir hlutu ekki meiðsl.  Skipverjarnir þrír hafa nú þegar gefið lögreglu skýrslu varðandi aðdraganda slyssins.    Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.  Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur verið tilkynnt um atvikið.