19 Desember 2006 12:00
Fréttatilkynning vegna skipstrands við Hvalsnes í Sandgerði nr. 1
Send út kl. 10:45
Þriðjudaginn 19. desember 2006, kl. 04:43, barst lögreglu tilkynning frá vaktstöð siglinga um skipstrand við Sandgerði og að björgunarskip þar hefði verið kallað út. Athugun leiddi í ljós að 3600 lesta flutningaskip hafði strandað út af Hvalsnesi í Sandgerði. Skipið, Wilson Muuga, er skráð í Kýpur með 12 manna áhöfn og var á leið frá Grundartanga til Murmansk. Áhöfnin er frá Rússlandi, Póllandi og Úkraínu. Skipið var ólestað.
Kl. 05:07 var tilkynnt að leki væri kominn að skipinu og nokkru síðar að töluverður sjór væri kominn í skipið.
Um borð í Wilson Muuga eru um 145 lestir af olíu, aðallega svartolíu. Fulltrúar Umhverfisstofnunar er komnir á vettvang.
Danska varðskipið Triton hafði verið í grennd og hélt á vettvang auk þess sem varðskipin Týr og Ægir héldu áleiðis á strandstað. Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út.
Sendur var bátur frá Triton með 8 mönnum að skipinu Wilson Muuga en honum hvolfdi og allir bátsverjar lentu í sjónum. Þyrlur leituðu mannanna í um það bil klukkustund og fundu 7 þeirra á lífi en sá 8. var látinn.
Áhöfn Wilson Muuga er enn um borð í skipinu og er ekki talin í mikilli hættu næstu klukkustundir. Reynt verður að bjarga áhöfninni í land strax og færi gefst. Björgunar- og mengunarvarnaaðgerðir standa yfir.
Nú fellur frá á slysstað og háfjara er um kl. 11:30. Á slysstað er talsvert brim og spáð versnandi veðri.
Áætlað er að senda út fréttatilkynningar frá lögreglunni á um klukkustundarfresti þar sem gerð verður grein fyrir framvindu málsins.