19 Desember 2006 12:00

Fréttatilkynning vegna skipstrands við Hvalsnes í Sandgerði nr. 4

Send út kl. 15:45

Um kl. 14:50 var lokið við að flytja alla frá borði flutningaskipsins Wilson Muuga sem strandaði við Hvalsnes í Sandgerði í morgun. Skipverjarnir 12 voru allir vel á sig komnir en voru fluttir til öryggis í læknisskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík.

Í morgun voru 7 skipverjar af danska strandgæsluskipinu Triton fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þeim hafði verið bjargað úr sjónum. Þeir voru allir lagðir inn á sjúkrahúsið til aðhlynningar. Sex þeirra hafa verið útskrifaðir en einn ofkældist og mun væntanlega dvelja á sjúkrahúsinu til morguns.      

Yfirheyrslur yfir skipverjum hefjast í dag hjá lögreglunni í Keflavík og verður framhaldið á morgun en yfirheyra þarf á þriðja tug manna vegna þessara tveggja sjóslysa.

Aðgerðum vegna mengunarvarna verður haldið áfram á strandstað.