17 Maí 2016 16:00

Rúmlega 90% þeirra flóttamanna sem til ríkja Evrópusambandsins (ESB) koma nýta sér á einhverju stigi ferðarinnar kerfi sem skipulagðir glæpahópar stýra.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um smygl á flóttafólki , “Migrant Smuggling Networks”, sem Evrópulögreglan (Europol) og Alþjóðalögreglan (Interpol) hafa unnið í sameiningu.

Í formála skýrslunnar segir Rob Wainwright, framkvæmdastjóri Evrópulögreglunnar, að þessar upplýsingar gefi glögglega til kynna að skipulagðir glæpahópar nýti sér flóttamannavandann í ábataskyni.

Hópar sem standi að skipulögðum flutningum flóttafólks til ríkja ESB hafi reynst afar sveigjanlegir og bregðist hratt við aðgerðum lögreglu m.a. með því að nýta nýjar smyglleiðir.

Raunar taki smyglleiðir sífelldum breytingum sem reyni mjög á getu lögreglu til að bregðast við. Segir framkvæmdastjórinn mikilvægt að upplýsingaskipti lögreglu séu hröð og skilvirk við þessar aðstæður.

Upplýsingar þess efnis að rúmlega 90% flóttafólks nýti sér á einhverju stigi ferðarinnar þá  milligöngu sem skipulagðir glæpahópar bjóða upp á og stýra  byggja á rannsóknum Evrópulögreglunnar.

Í febrúarmánuði  tók til starfa evrópsk miðstöð, European Migrant Smuggling Centre, sem ætlað er að bregðast við stórfelldum fólksflutningum til Evrópu á vegum skipulagðra glæpahópa.

Skýrsluna má nálgast hér.    Migrant Smuggling Networks