10 Janúar 2011 12:00

Við stofnun embættis sérstaks saksóknara færðust þangað reyndir starfsmenn frá efnahagsbrotadeild. Á síðasta ári höfðu margir af reyndustu starfsmönnum deildarinnar færst til þess embættis. Á sama tíma fjölgaði málum í deildinni.  

Ríkislögreglustjóri brást við þessum aðstæðum með því að endurskipuleggja starfsemi og verklag  efnahagsbrotadeildar. Lögð var rík áhersla á að fullmanna deildina en þar eru nú 17 starfsmenn; 4 lögfræðingar, 9 lögreglumenn og 4 viðskiptamenntaðaðir starfsmenn með reynslu úr viðskiptalífinu.  Engar fjárveitingar fengust til að fjölga starfsmönnum og var kostnaði vegna þessara breytinga mætt með frekari samdrætti í öðrum rekstri embættis ríkislögreglustjóra.

Nýja starfsmenn þurfti að þjálfa jafnframt því að tekist var á við uppsafnaðan málahala. Með samstilltu átaki starfsmanna og dugnaði hefur deildin nú náð miklum árangri við að ljúka málum.

Í fjárlögum fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til eftirlitsstofnana ríkisins sem kæra mál til efnahagsbrotadeildar. Ríkislögreglustjóra hefur verið gert að skera niður í rekstri um hátt í 300 mkr. á árunum 2009-2011.

Nánari upplýsingar veitir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, saksóknari efnhagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra.