7 Desember 2012 12:00
Nú nýlega komu til Ísafjarðar tveir af þeim lögreglumönnum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem hvað mest hafa unnið að rannsóknum mála er varða skipuleg glæpasamtök. Þessir lögreglumenn funduðu með lögreglumönnum á Vestfjörðum og einnig með sveitarstjórnarfólki á norðanverðum Vestfjörðum.
Umfang og eðli þessara samtaka var kynnt á þessum fundum og rædd voru þau úrræði sem lögregla og sveitarstjórnir hafa til að bregðast við ef skipuleg glæpasamtök hyggjast reyna að skjóta rótum á Vestfjörðum.
Lögregla og sveitarstjórnir voru sammála um vinna saman að því að tryggja að samtök sem þessi festi ekki rætur hér á svæðinu. Ef almennir borgarar verða varir við slíka þróun eru þeir hvattir til að gera lögreglunni viðvart. Fullkominni nafnleynd er heitið. Í því sambandi er hægt að hafa samband í síma lögreglunnar, 450 3730 eða upplýsingasíma lögreglu, 800 5005.