23 Janúar 2004 12:00
Kl. 11:17 var tilkynnt um bát á hvolfi í innsiglingu Grindavíkurhafnar og að þrír menn hafi hugsanlega verið um borð. Björgunarsveitin Þorbjörn, þyrla landhelgisgæslunnar, lögregla og sjúkralið voru send á staðinn. Með miklu snarræði tókst björgunarsveitarmönnum, í miklu brimi, á litlum slöngubáti að bjarga tveimur skipverjum, af Sigurvini GK-61, úr sjónum utan við eystri hafnargarðinn. Báðir mennirnir voru kaldir og hraktir. Þeir voru fluttir á slysadeild Landspítalans háskólasjúkrahús í Fossvogi til aðhlynningar. Í ljós kom að skipverjarnir, 37 ára og 28 ára, höfðu verið tveir en ekki þrír eins og talið var í fyrstu. Báðir skipverjarnir voru í björgunarvesti er þeim var bjargað úr sjónum. Annar þeirra hélt sér í björgunarbát sem var á hvolfi.
Sigurvin GK-61, sem er 12 tonna plastbátur, barst upp í hafnargarðinn mikið skemmdur. Skipverjar voru á leið í land er bátinn hvolfdi og er ástæða óhappsins ekki kunn að svo stöddu.