18 Janúar 2013 12:00

Samkvæmt landsskrá skotvopna liggja fyrir upplýsingar um að á höfuðborgarsvæðinu er talsvert af skotvopnum sem á eftir að ráðstafa og eru ennþá skráð á nöfn látinna skotvopnaleyfishafa.

Því hefur verið beint til sýslumanna að vekja athygli erfingja á þeim lögum sem um þetta gilda og jafnframt hafa verið send út bréf til margra sem málið varða.  Sumir hafa brugðist vel við og gert viðeigandi ráðstafanir en aðrir ekki .  Því er hér með skorað á þá sem eiga eftir að ganga frá þessum málum að gera það sem fyrst.

Í vopnalögum nr. 16/1998 segir í 16. gr.:

„Skotvopni, sem er hluti dánarbús, skal innan tólf mánaða frá andláti leyfishafa ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga slíkt skotvopn. Þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi er heimilt að víkja frá þessu skilyrði, enda verði skotvopnið gert óvirkt.“

Ef skotvopnum er ekki ráðstafað til skotvopnaleyfishafa, sem gjöf eða eftir sölumeðferð, skal skila þeim til lögreglu.  Enginn má þó eigna sér eða afhenda skotvopn til eignar nema viðkomandi hafi sótt um heimild hjá lögreglu til að eignast það og sá fengið „kaupheimild.“

Ef erfingi sem ekki hefur skotvopnaleyfi vill halda skotvopni skal það gert varanlega óvirkt af viðurkenndum byssusmið og það tilkynnt lögreglu.