19 Ágúst 2003 12:00

            Klukkan 23:18 að kvöldi mánudagsins 18. ágúst 2003, barst hringing til lögreglunnar á Ísafirði um Neyðarlínuna.  Tilkynnt var um þrá menn, sem væru í vanda staddir á litlum báti á Efstadalsvatni í Laugadal í Ísafjarðardjúpi.  Tilkynningin var mjög óljós.  Var brugðist við með því að kalla björgunarsveitirnar á Ísafirði og í Súðavík út á rauðu viðbragði.  Skömmu síðar var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beðin um að setja þyrluna í viðbragðsstöðu.  Fyrir tilviljun frétti lögreglan af slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanni frá Ísafirði, sem var þarna skammt frá.  Náðist fljótt samband við hann og fór hann á vettvang.  Þegar hann nálgaðist vatnið heyrði hann kallað á hjálp, en sá ekkert í fyrstu hvað hafði gerst eða hvaða ástand var á staðnum.  Kom slökkviliðsmaðurinn þessum boðum til lögreglu, en hann hafði síma meðferðis, sem þá kallaði þyrluna út með hraði.  Slökkviliðsmaðurinn fór nær og sá þá að bátnum hafði hvolft, tveir menn á kili hans, en einn í vatninu.  Var beðið komu þyrlunnar og björgunarsveitarmanna.  Þyrlan kom fyrr á vettvang, eða klukkan 01:13 og bjargaði mönnum úr vatninu.  Mátti ekki tæpara standa, þar sem maðurinn sem var í vatninu, var að gefast upp.  Þyrlan lenti á Ísafjarðarflugvelli klukkan 01:40 og voru mennirnir fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar.  Tveir mannanna voru það vel á sig komnir að þeir máttu yfirgefa sjúkrahúsið eftir skoðun, en sá þriðji var lagður inn svo hann mætti jafna sig.

            Allir þeir sem í vatninu lentu og sá sem tilkynnti fyrst um slysið, eru grunaðir um að hafa verið ölvaðir.

            Við björgunina notaði áhöfn þyrlunnar nætursjónaukana.  Er ekki að efa að þeir hafi skipt sköpum við björgunina.