22 Febrúar 2004 12:00

Klukkan 20:28 á föstudagskvöld barst lögreglu í Bolungarvík tilkynning um að snjóflóð hefði fallið á Óshlíðarveg og að a.m.k. einni  bifreið hefði verið ekið inn í flóðið þar sem hún sæti föst. Þetta var við Sporhamar, skammt innan við Óshólavita. Flóðið var um 250 til 300 metra breitt og um einn og hálfur metri á hæð þó það væri ekki samfellt.  Á vettvangi var hvöss vestan átt og skafrenningur.

Lögreglumenn fóru á vettvang  og náðu í ungan ökumann sem hafði fest bifreið sína í flóðinu.  Þegar lögreglumenn hugðust yfirgefa vettvanginn féll annað snjóflóð rétt fyrir aftan lögreglubifreiðina í þann mund sem bakka átti henni frá og lokuðust þeir sem þarna voru á milli flóða. Lögreglumennirnir og ungi ökumaðurinn yfirgáfu lögreglubifreiðina og komust fótgangandi yfir flóðið sem var um 20 metrar á breidd og um einn og hálfur metri á hæð.

Eftir um hálftíma kom hjólaskófla á vegum Vegargerðarinnar á vettvang og ruddi leið í gegnum seinna snjóflóðið og var þá hægt að koma bifreiðunum af hættusvæðinu.  Þegar ökumaður hjólaskóflunar hafði rutt áfram veginn í nokkra stund féll snjóflóð enn á ný rétt framan við hana. Þá var ákveðið að hætta við mokstur og opna ekki veginn fyrr en morguninn eftir.