16 Janúar 2013 12:00

Í dag fór fram árleg snjóflóðaleitaræfing sérsveitar ríkislögreglustjóra. Þar var æfð notkun snjóflóðaýla, ásamt stangarleit og mat á snjóflóðahættu. Markmið æfingarinnar var að viðhalda þekkingu sveitarinnar við leit og björgun í snjóflóði. Kjöraðstæður voru í dag þar sem nýfallið snjóflóð var í Bláfjöllum. Flóðið var u.þ.b. 300 metra breitt og hafði farið af stað úr fjallshlíðinni norðan við veginn að húsnæði skíðadeildar Fram.

Í dag eru einmitt 18 ár síðan snjóflóð féll á Súðavík með hörmulegum afleiðingum. Þess má geta að sérsveitarmenn voru sendir ásamt öðru hjálparliði til Flateyrar til aðstoðar þegar snjóflóðin féllu þar síðar sama ár. Í kjölfar þess og síðan þá hefur sérsveitin viðhaldið búnaði og þekkingu sem nýtist við slíkar aðstæður.