20 Mars 2009 12:00

Starfsmaður Vallaskóla á Selfossi brást snaggaralega við, eftir hádegi í gær, er hann veitti því athygli er 17 ára piltur  kom í skólann og gaf sig á tal við 16 ára gamlan nemanda skólans.  Sá eldri fékk hinn til að koma með sér útaf skólalóðinni og allt í einu birtust þar nokkrir piltar og skipti engum togum að þeir réðust á nemandann.  Starfsmaður skólans sem hafði fylgst með fór þegar á milli og kom í veg fyrir frekari árás á nemandann.  Nemandinn slapp fyrir bragðið með minni háttar meiðsli.  Skólinn brást hárrétt við með því að tilkynna atvikið strax til lögreglu sem fór þegar af stað til að leita árásarmannanna sem voru fjórir á aldrinum 16 til 19 ára.  Þeir voru stuttu síðar handteknir á heimilum sínum og færðir til yfirheyrslu í lögreglustöð.  Því til viðbótar voru nokkur vitni yfirheyrð.  Piltarnir fjórir játuðu að hafa lagt leið sína að skólanum í þeim tilgangi að ráðast á nemandann sem einn úr hópnum taldi sig þurfa að koma fram hefndum á.  Lögreglan þakkar og hrósar skólastjórnendum fyrir að hafa tilkynnt atvikið strax til lögreglu sem varð til þess að hraða og auðvelda mjög rannsókn málsins.