21 Desember 2006 12:00

Almannavarnarnefndir komu saman á lögreglustöðinni á Selfossi kl. 15:00.   Vatn er nú mikið farið að lækka í efri byggðum sýslunnar en ennþá heldur áfram að hækka í ánni við Selfoss og kl. 15:00 mældist rennsli þar 2321 rúmmetri á sekúndu.   Slökkvilið og starfsmenn áhaldahúss vinna nú að dælingu úr kjallara verslunarmiðstöðvarinnar Kjarnans við Ölfusárbrú og eins hefur vatn flætt inn í sýningarsal í Selfossbíói og víðar um kjallara Hótel Selfoss.

Björgunarsveitir hafa unnið að verðmætabjörgun og aðstoð við bændur á Skeiðum en þar virðist nú ástand vera að verða stöðugt.     Aðstoða þurfti fólk sem var orðið innlyksa í sumarbústað í Merkurlaut á Skeiðum við að komast leiðar sinnar en nýr vegspotti frá Skeiðavegi hafði valdið vatnssöfnun þar fyrir ofan og var rofið skarð í hann til að koma í veg fyrir tjón á bústöðum.     Það vatn mun skila sér niður í Mókeldu og verður fylgst með rennsli þar.

Almannavarnarnefndirnar munu koma saman til fundar kl. 10:00 í fyrramálið að óbreyttu en náið verður fylgst með þróun mála og nefndirnar kallaðar fyrr saman verði talin þörf á því.