1 Nóvember 2012 12:00

Lögreglunni að Suðurnesjum barst tilkynning um bensínþjófnað úr þremur skúrum hjá Golfklúbbi Suðurnesja í vikunni. Þaðan var stolið bensíni sem geymt var þar í brúsum en einnig hafði bensíni verið dælt af golfbílum, sem voru í einum skúranna

Þá var eldsneyti stolið úr tönkum tveggja bifreiða í Njarðvík. Taldi sá er tilkynnti þjófnaðinn að sá eða þeir, sem þarna voru að verki, hefðu náð 70 til 75 lítrum af hvorri bifreið, bensíni af annarri en olíu af hinni. Hann kvaðst hafa orðið fyrir slíku tjóni áður, þegar hann hefði fyllt tank bifreiðar sinna að kvöldi en komið að henni með hálftóman tank morguninn eftir. Málin eru í rannsókn.

Ökumaður með fíkniefni í vasanum

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni þrjá ökumenn, sem allir voru grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna. Við leit í bifreið eins þeirra fundust leifar af umbúðum utan af fíkniefnum. Í bifreið annars ökumanns var yfirþyrmandi kannabislykt, þegar lögregla stöðvaði för hans. Sá ökumaður reyndist vera með fíkniefni í buxnavasa sínum, þegar hann var handtekinn. Allir ökumennirnir þrír viðurkenndu neyslu fíkniefna.